Fara í efni

Djúpavogshreppur hlaut minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2017

Minjastofnun Íslands veitti Djúpavogshreppi sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar á ársfundi stofnunarinnar í gær, 23. nóvember 2017. Viðurkenningin er veitt fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar. Þetta er í annað sinn sem slík viðurkenning er veitt í tengslum við ársfund stofnunarinnar. Árið 2015 hlaut Vegagerðin viðurkenninguna fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum.

Djúpavogshreppur er byggðarlag með 452 íbúa. Samfélagið þar hefur á undanförnum árum átt í vök að verjast í atvinnumálum og hafa stjórnendur sveitarfélagsins þurft að bregðast við ýmsum afleiðingum þess. Engu að síður hafa þeir lagt metnað sinn í því að marka byggðarlaginu sérstöðu í skipulags- og atvinnumálum með því að leggja áherslu á sögulega arfleifð staðarins í allri stefnumótun sveitarfélagsins, en Djúpivogur er meðal elstu verslunarstaða landsins. Þýskir kaupmenn hófu þar kaupskap og byggðu þar verslunarhús við voginn árið 1589. Frá þeim tíma hefur kauptúnið verið miðstöð verslunar, útgerðar og annars athafnalífs á sunnanverðum Austfjörðum. Af sýnilegum minjum vega þyngst hin friðuðu og endurbyggðu verslunarhús 18. og 19. aldar, Langabúð og Faktorshúsið.

Í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 var sett fram metnaðarfull húsverndarstefna og á grundvelli hennar lét sveitarfélagið vinna viðamikla húsakönnun sem lokið var við árið 2014. Könnunin var unnin af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur og er hún vandaðri og efnismeiri en flestar slíkar kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi. Nær hún bæði til þéttbýlisins við voginn og dreifðari byggða við Álftafjörð, Hamarsfjörð og Berufjörð, auk Papeyjar, þar sem er að finna dæmi um sérstakt staðbundið byggingarlag sveitabæja frá fyrri tíð. Auk stefnumótunar hefur sveitarfélagið beitt sér fyrir og að hluta til kostað endurbyggingu þriggja gamalla húsa og er eitt þeirra, Geysir, nú ráðhús byggðarlagsins. Frumkvæði forráðamanna sveitarfélagsins á sviði húsverndar hefur orðið eigendum eldri húsa á staðnum hvatning til að gera upp hús sín og á þann hátt styrkja hina sögulegu ásýnd byggðarinnar.

Einnig var framkvæmd fornleifaskráning á svæðinu árið 2016 af Fornleifastofnun Íslands ses. og leiddi hún í ljós mikinn fjölda fornleifa á svæðinu, eða 51 fornleifar innan þess svæðis sem nú hefur verið skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Saman felur þessi menningarsögulegi arfur í sér mikil tækifæri til verndar og uppbyggingar.

Þann 15. október sl. staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra tillögu Djúpavogshrepps um verndarsvæði í byggð : „Verndarsvæði við Voginn“ í samræmi í lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Verndarsvæði við Voginn er fyrsta tillaga að verndarsvæði í byggð sem staðfest er á Íslandi.