Fara í efni

Enn af frumvarpi um Hálendisþjóðgarð

 

Minjastofnun Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, stjórnarfrumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi af umhverfis- og auðlindaráðherra. Þegar frumvarpið birtist fyrst í samráðsgátt, fyrir um ári síðan, gerði stofnunin miklar og alvarlegar athugasemdir við efni þess. Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi virðist í engu hafa verið tekið tillit til athugasemda Minjastofnunar en frumvarpið flækir verulega stjórnsýslu minjaverndar á Íslandi. Það er von Minjastofnunar Íslands að Alþingi nái að snúa frumvarpinu af þeirri braut sem í því er mörkuð.

Minnt skal á að Lög um menningarminjar nr. 80/2012 eru í fullu gildi. Þeirra er hins vegar að engu getið í fyrirliggjandi frumvarpi þó svo að minjar og menningarlandslag séu órofa þáttur í öllum þjóðgarðinum.

Verði frumvarpið að lögum eins og það er nú er verið að hverfa frá evrópskri hefð í minjavörslu, sem á sér 200 ára sögu á Íslandi og þess í stað verið að taka upp kerfi sem tíðkast innan þjóðgarða í Bandaríkjunum. Þessa kerfisbreytingu er verið að gera innan ráðuneytis sem fer ekki með stjórnsýslu menningarminja á Íslandi og án aðkomu þeirra sem best þekkja til minjavörslu á Íslandi. Í stjórn þjóðgarðsins er gert ráð fyrir 11 fulltrúum en þar á Minjastofnun ekkert fast sæti, né í þeim sex svæðisbundnu umdæmisráðum þar sem í hverju fyrir sig sitja 9 fulltrúar.

Ljóst er að hér er á ferðinni stefnubreyting á sviði minjavörslu sem er lítt ígrunduð og myndi skapa stórkostlega réttaróvissu um málaflokkinn og skerða lögbundið hlutverk undirstofnunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þ.e. Minjastofnunar Íslands, varðandi vernd, eftirlit, kynningu, rannsóknir, innviðauppbyggingu og aðgengismál að minjastöðum.

Til að losna við þennan stærsta vanda sem við blasir í frumvarpinu og eyða réttaróvissu varðandi stjórnsýslu menningarminja þá þyrfti að taka skýrt fram í lögum um Hálendisþjóðgarð, að um menningarminjar og menningarlandslag innan þjóðgarðsins gildi lög um menningarminjar nr. 80/2012.

Hægt er að nálgast umsögn Minjastofnunar í heild sinni hér .