Fallist á sjónarmið Minjastofnunar
Minjastofnun hefur dregið til baka tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um að austasti hluti Víkurgarðs verði friðlýstur. Samhliða fellur skyndifriðun svæðisins sem Minjastofnun setti á hinn 8. janúar 2019 úr gildi.
Framkvæmdaaðilar á svæðinu hafa lýst yfir vilja til að gera breytingar á áformum sínum sem koma til móts við áherslur Minjastofnunar um að Víkurgarður fái þann sess sem honum ber sem opið og frjálst almenningsrými þar sem saga garðsins og svæðisins í kring fái að njóta sín. Stofnunin telur því ekki lengur þörf á austasti hluti garðsins verði friðlýstur. Það er mat Minjastofnunar að þetta sé farsæl niðurstaða í málinu og fagnar stofnunin því frumkvæði sem framkvæmdaaðilar hafa sýnt við að leysa úr málinu með þessum hætti.
Minjastofnun leggur áherslu á að skipulag garðsins verði ekki háð starfsemi á nærliggjandi lóðum, en að sama skapi að það verði í sátt við mannlíf og starfsemi á svæðinu. Minjastofnun hefur lagt til að fram fari hugmyndasamkeppni um að gera sögulegt hlutverk Víkurgarðs sýnilegra og bindur vonir við að nú geti hlutaðeigandi aðilar sameinast um það verkefni að gera þessa sögu aðgengilega almenningi og það verði til þess að styrkja mannlíf og starfsemi í miðbæ Reykjavíkur.