Fara í efni

Ferð um Vestfirði

Húsafriðunarnefnd ásamt forstöðumanni og starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs Minjastofnunar fór í vettvangsferð um norðanverða Vestfirði dagana 3. til 5. september í þeim tilgangi að skoða ýmis hús og mannvirki þar sem unnið er að endurbótum með stuðningi húsafriðunarsjóðs.

Ekið var vestur til Ísafjarðar með viðkomu á Bifröst í Borgarfirði þar sem elsti hluti skólahúss Viðskiptaháskólans var skoðaður með tilliti til mögulegrar friðlýsingar. Þá var komið við í Ögri, þar sem gamla íbúðarhúsið var skoðað og ásamt viðgerð á ytra borði kirkjunnar, sem núverið var lokið við. Þá var haldið að Litlabæ í Skötufirði, sem er í húsasafni Þjóðminjasafnsins. Á Ísafirði var fundað með bæjarstjóra, bæjarfulltrúum, sviðsstjóra umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar. Bærinn hlaut á þessu ári styrki úr húsafriðunarsjóði til að vinna tillögur að verndarsvæði í byggð á Eyrinni og í Neðstakaupstað.  Gengið var um fyrirhuguð verndarsvæði undir leiðsögn Jóns Sigurpálssonar, fyrrum forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða. Þá var farið til Suðureyrar, Flateyrar og Bolungarvíkur og hugað að eldri húsum og sögulegri byggð á hverjum stað. Haldið var til Núps í Dýrafirði og elsta skólahúsið þar skoðað ásamt Hlíð, íbúðarhúsi sr. Sigtryggs Guðlaugssonar og Hjaltlínu Guðjónsdóttur. Þá heimsótti hópurinn garðinn Skrúð sem hefur verið endurgerður og hlotið mikilvirt alþjóðleg verðlaun. Ferðinni lauk á Þingeyri þar sem gamli spítalinn var skoðaður ásamt pakkhúsinu og vélsmiðjunni sem er í vörslu Byggðasafns Vestfjarða. 


Psx_20180903_180203