Fornminjasjóður - Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki fyrir árið 2024
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í fornminjasjóð fyrir árið 2024. Umsóknarfrestur er til og með 16. janúar 2024. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur koma ekki til álita við úthlutun. Umsóknir fara í gegnum Stafrænt Ísland á island.is og því þarf að notast við rafræn skilríki í umsóknarferlinu. Þau sem ekki hafa rafræn skilríki geta haft samband við Minjastofnun Íslands á netfangið fornminjasjodur@minjastofnun.is og fengið leiðbeiningar við gerð umsókna. Nauðsynlegt er að hlaða niður sérsniðna kostnaðaráætlun sem þarf að senda inn með umsókninni. Hægt er að hlaða henni niður hér: Fornminjasjóður - kostnaðaráætlun með umsókn 2024
Smellið hér til þess að fylla út umsókn í gegnum Stafrænt Ísland.
Nánari upplýsingar um samninga og styrkgreiðslur (og hlekk á umsóknarkerfi) er að finna hér ⇒ Umsóknir í fornminjasjóð | Minjastofnun
Hlutverk fornminjasjóðs er að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum. Úthlutað er styrkjum til eftirfarandi verkefna:
• Rannsókna á fornminjum (fornleifum og forngripum)
• Miðlunar upplýsinga um fornminjar
• Varðveislu og viðhalds fornminja
Sjóðnum er jafnframt heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja. Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs og menningarsögulegs gildis og þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í minjavernd, ásamt gildi þeirra fyrir varðveislu þjóðararfleifðarinnar.
Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr fornminjasjóði og hefur jafnframt eftirlit með að styrkt verkefni séu unnin í samræmi við lög nr. 80/2012 og reglur stofnunarinnar og í samræmi við innsend umsóknargögn. Nánari upplýsingar um sjóðinn og úthlutunarreglur, er að finna hér ⇒ Fornminjasjóður | Minjastofnun