Fara í efni

Fréttatilkynning

Vegna frétta ýmissa fjölmiðla þann 23. október 2015  um að ákvörðun setts forsætisráðherra um friðlýsingu hafnargarðs á Austurbakka í Reykjavík hafi komið degi of seint vill Minjastofnun Íslands koma eftirfarandi á framfæri.
Í 2. mgr. 20 gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 segir: Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.
Tilkynning um skyndifriðun var send til Landstólpa þróunarfélags ehf. sem komið hefur fram sem framkvæmdaraðili á fyrri stigum málsins gagnvart stofnuninni og forsætisráðherra í lok vinnudags 9. september. Tilkynningin barst félaginu um fjögurleytið þann dag en þar sem bréfið var afhent vaktmanni í Stjórnarráðinu eftir lok vinnudags fékk forsætisráðherra það í hendur daginn eftir 10. september 2015. Ekki var send sérstök tilkynning til forsvarsmanna húsfélags Austurbakka 2, en lóðin er í óskiptri sameign eftirtalinna aðila; Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Landstólpa þróunarfélags ehf., Situs ehf., Kolufells ehf., Landsbankans hf. og Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar, sem síðan hafa stigið fram sem hagsmunaaðilar í málinu. Þá hefur Reginn fasteignafélag einnig stigið fram sem hagsmunaaðili í málinu.
Það er því mat stofnunarinnar að skyndifriðun hafnargarðsins hafi tekið gildi þann 10. september og gilti til 22. október 2015. Það álit stofnunarinnar kemur einnig fram í rökstuðningi fyrir skyndifriðun sem sendur var lögfræðingum framkvæmdaraðila og lóðareigenda og borgarlögmanni þann 23. september sl. og hefur ekki verið mótmælt. Dagsetningarnar 10. september og 22. október hafa því komið fram í gögnum málsins og ekki verið mótmælt í umsögnum aðila í ferli málmeðferðarinnar.