Fara í efni

Friðaðar kirkjur í Skaftafellsprófastsdæmi

23-bindi
23-bindi

Í þessu bindi er sagt frá tíu kirkjum í Skaftafellsprófastsdæmi, sem nú er hluti af nýju Suðurprófastsdæmi: Brunnhólskirkju, bænhúsinu á Núpsstað, Grafarkirkju, Hofskirkju, Kálfafellskirkju, Langholtskirkju, Prestsbakkakirkju, Skeiðflatarkirkju, Stafafellskirkju og Þykkvabæjarklausturskirkju. Höfundar eru arkitektarnir Guðmundur L. Hafsteinsson og Pétur H. Ármannsson, sagnfræðingarnir Arnþór Gunnarsson, Gísli Sverrir Árnason og Gunnar Bollason, Lilja Árnadóttir, fagstjóri í munasafni Þjóðminjasafns, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafns, Björg Erlingsdóttir þjóðfræðingur, Svavar Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands, Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs, Þórður Tómasson safnvörður og Sigþór Sigurðsson fræðimaður.

Torfkirkjurnar tvær eru í húsasafni Þjóðminjasafns, bænhúsið á Núpsstað smíðaði Nikulás Jónsson 1855, Hofskirkju Páll Pálsson 1884. Danski arkitektinn Hans Heinrich Schütte teiknaði Prestsbakkakirkju, glæsilegt mannvirki með nýstárlegri innri skipan. Í henni er skrautmálning eftir Einar Jónsson frá Fossi, ljósahjálmur frá um 1700 og steindir gluggar eftir Leif Breiðfjörð. Langholtskirkja og Þykkvabæjarklausturskirkja eru verk Jóhannesar Jónssonar forsmiðs; í þeirri fyrrnefndu er forn kirkjuklukka, líklega frá miðöldum, í þeirri síðarnefndu kaleikur og patína eftir Sigurð Þorsteinsson og altarisklæði frá 1789. Stafafellskirkja, sem Jón Jónsson smíðaði, á altaristöflu frá miðri 17. öld og prédikunarstól frá 1647 með máluðum myndum af Kristi og guðspjallamönnunum. Brunnhólskirkju byggði Móritz Steinsen, hún á kaleik og patínu eftir Sigurð Vigfússon. Kálfafellskirkju, sem Sveinn Ólafsson reisti, prýðir altaristafla frá 1683. Samúel Jónsson forsmiður er höfundur Skeiðflatarkirkju og Grafarkirkju; í þeirri fyrrnefndu er kaleikur og patína frá 16. öld, í þeirri síðarnefndu getur að líta altaristöflu eftir Brynjólf Þórðarson listmálara. 

Bókin er prýdd fjölda ljósmynda, sem Ívar Brynjólfsson ljósmyndari Þjóðminjasafns hefur tekið, og teikningum af kirkjunum tíu. Bókin er gefin út með styrk frá Suðurprófastsdæmi. 

KIRKJUR ÍSLANDS er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.