Fara í efni

Friðlýsing Hreppslaugar og Múlakots

Hreppslaug
Hreppslaug
Forsætisráðherra hefur að tillögu Minjastofnunar Íslands friðlýst Hreppslaug í Skorradalshreppi og Múlakot í Fljótshlíð.

Hreppslaug:

Friðlýsingin tekur til steinsteypts hluta hins upphaflega laugarmannvirkis en nær ekki til seinni tíma breytinga eða þjónustuhúss. 

Tillögu að friðlýsingu fylgdi eftirfarandi rökstuðningur:

Hreppslaug er steinsteypt sundlaug, 10 x 25 m, byggð 1928-29 af Ungmennafélaginu Íslendingi skammt frá bænum Efri­-Hrepp í Andakíl, Borgarfirði. Hún er fimm árum yngri en Seljavallalaug undir Eyjafjöllum, sem er friðlýst mannvirki. Hreppslaug var fyrsta steinsteypta sundlaugin í Borgarfirði og var um árabil helsta útisundlaug héraðsins. Heimildir eru um byggingu 25 steinsteyptra sundlauga hér á landi á árabilinu 1923-1940. 

Að mati Minjastofnunar hefur Hreppslaug gildi frá sjónarhóli byggingarlistar sem óvenjulegt steinsteypumannvirki, hannað af Sigurði Björnssyni yfirsmið Hvítárbrúar. Laugin hefur mikið menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um félags- og íþróttastarf ungmenna­félaganna og sem mikilvægur staður í menningar- og félagslífi héraðsins. Mannvirkið situr fallega í landinu og tengist umhverfi sínu á áhrifamikinn hátt. Steyptur hluti laugarinnar er lítið breyttur en seinni tíma viðbætur, handrið, skjólveggir og þjónustuhús eru til lýta í núverandi mynd. Laugin er í notkun en viðgerð og endurbætur eru aðkallandi. 

Minjastofnun Íslands leggur til friðlýsingu Hreppslaugar á grundvelli staðbundins menningarsögulegs gildis og fágætis, en laugin er eitt af elstu dæmum um upprunalegt steinsteypt mannvirki sem tengist hagnýtingu heits vatns í þágu sund- og baðmenningar.

Ljósmyndin af Hreppslaug er tekin af Kristínu Jónsdóttur.


Múlakot í Fljótshlíð:Múlakot, Fljótshlíð

Friðlýsingin tekur til staðarins í heild innan afmarkaðs svæðis, gamla íbúðar- og gistihússins  og annarra uppistandandi staðarhúsa, rústa útihúsa og annrarra fornminja, garðsins framan við húsið og lysthússins í garðinum.

Tillögu að friðlýsingu fylgdi eftirfarandi rökstuðningur:
Byggingar í Múlakoti, rústir útihúsa, garðurinn framan við húsin ásamt lysthúsinu mynda eina, órofa minjaheild sem mikilvægt er að verði varðveitt til komandi kynslóða. Bæjarhúsin voru reist í áföngum á árunum 1898 til 1946 á rústum torfbæjar sem enn má sjá í kjallara undir húsinu. Hlutar hússins frá ólíkum tímaskeiðum hafa varðveist í nánast upprunalegri mynd og vitna um samfellda búsetusögu margra kynslóða. Múlakot hefur sérstakt menningarsögulegt gildi sem einn elsti gisti- og greiðasölustaður héraðsins sem jafnframt var sveitaheimili og aðsetur listamannsins Ólafs Túbals. Staðurinn hefur sérstaka tengingu við íslenska listasögu en nokkrir af helstu myndlistarmönnum þjóðarinnar dvöldu þar og máluðu þjóðkunn málverk af staðnum og umhverfi hans. Loks er garður Guðbjargar Þorleifsdóttur frá 1897 einn elsti og merkasti einkagarður landsins.