Fara í efni

Friðlýsing þriggja húsa

Bæjarbíó Hafnarfirði - salur
Bæjarbíó Hafnarfirði - salur
Forsætisráðherra hefur að tillögu Minjastofnunar Íslands friðlýst eftirtalin hús:

Bæjarbíó, Strandgötu 6 í Hafnarfirði.

Friðlýsingin tekur til innréttinga í anddyri, forsal og bíósal.

Tillögu að friðlýsingu fylgdi eftirfarandi rökstuðningur:

Kvikmyndahúsið Bæjarbíó var innréttað á árunum 1942-1943 af Sigmundi Halldórssyni húsameistara, höfundi hússins að Strandgötu 6, og Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt. Það var tekið í notkun 10. janúar 1945. Mjög var vandað til hönnunar bíósins á sínum tíma. Ekki aðeins er það eina kvikmyndahúsið frá miðri 20. öld sem varðveist hefur í upphaflegri mynd heldur er þar að finna innréttingu sem einn helsti frumherji í stétt íslenskra húsgagnaarkitekta átti þátt í að móta og útfæra. Við faglega endurgerð bíósalarins fyrir um áratug voru upphaflegar teikningar Skarphéðins hafðar sem fyrirmynd jafnframt því sem kappkostað var að halda í veggmyndir og önnur sérkenni sem gefa bíóinu sögulegt gildi. Miklu var til kostað við endurgerð bíósins. Má nefna að kvikmyndasýningavélar eins og þær sem voru í bíóinu frá upphafi voru gerðar upp þannig að hægt yrði að sýna kvikmyndir eins og gert var þegar bíóið hóf starfsemi sína 1945. Í Bæjarbíói er nú varðveitt upprunalegt verklag við kvikmyndasýningar sem alls staðar á landinu hefur verið aflagt.

Galtafell í Hrunamannahreppi, sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara.

Friðlýsingin nær til ytra borðs og innréttinga hússins.

Tillögu að friðlýsingu fylgdi eftirfarandi rökstuðningur:Galtafell, sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara

Sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara er byggt í fjóstóft gamla bæjarins á Galtafelli í Hrunamannahreppi. Það er lítil en afar sérstök bygging, timburhús með krossreistu þaki á háum sökkli. Innan dyra sem utan endurspeglar það hugarheim listamannsins enda er húsið að mestu leyti hans sköpunarverk, auk þess að vera meðal elstu sumarhúsa landsins sem varðveist hafa. 

Stóri-Núpur í Gnúpverjahreppi, íbúðarhús séra Valdimars Briem.

Friðlýsingin tekur til ytra borðs og innréttinga sem varðveist hafa í húsinu.

Tillögu að friðlýsingu fylgdi eftirfarandi rökstuðningur:Stóri-Núpur, íbúðarhús sr. Valdimars Briem
Gamla íbúðarhúsið á Stóra–Núpi stendur á áberandi stað við hlið Stóra-Núpskirkju, einnar merkustu timburkirkju landsins í listrænu tilliti. Saman mynda þessi tvö hús sterka og einkennandi staðarmynd. Íbúðarhúsið er stórt og veglegt timburhús með brotaþaki. Það var reist af prestinum og sálmaskáldinu sr. Valdimar Briem í stað torfbæjarins sem hrundi í jarðskjálfta 1896. Stóra-Núpshúsið er mögulega eina timburhús þessarar gerðar frá 19. öld sem enn stendur í sunnlenskri sveit.