Frumvarp um Hálendisþjóðgarð. Hvar eru lög um menningarminjar?
Vegna áforma um stofnun Hálendisþjóðgarðs er vert að benda á að innan þess svæðis sem þjóðgarðurinn nær yfir er fjöldi friðaðra og friðlýstra fornleifa sem heyra undir stjórnsýslu Minjastofnunar Íslands. Þrátt fyrir það var ekkert rætt við Minjastofnun um undirbúning að stofnun þjóðgarðsins né stofnunin höfð með í gerð frumvarps. Ekki hefur enn verið tekið tillit til umsagna Minjastofnunar sem varða stjórnun menningarminja á svæðinu. Horft er framhjá lögum um menningarminjar og ekki vísað til þeirra í frumvarpinu á sama hátt og vísað er til laga um náttúruvernd.
Verndun menningarminja er sérstakt málefnasvið og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Með lögum um menningarminjar er málaflokkurinn lagður til Minjastofnunar Íslands sem hefur m.a. það hlutverk að vernda og viðhalda jarðföstum menningarminjum, ákvarða um aðgengi á minjastöðum og veita leyfi vegna framkvæmda sem geta haft áhrif á þá. Á þetta jafnt við innan þjóðgarða sem annars staðar. Nauðsynlegt er að sveitarstjórnarmenn og aðrir hafi það í huga að Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa því ekki ein það hlutverk að vinna að friðlýsingum í umhverfinu. Það hefur lengi verið hlutverk minjavörslunnar að stýra hvaða menningarminjar og menningarlandslag eru friðlýst og mennta- og menningarmálaráðherra að staðfesta þær tillögur.
Með lagafrumvarpinu er sköpuð óvissa um túlkun laga og framkvæmd þeirra og þar með stjórnsýslulegt hlutverk Minjastofnunar innan þjóðgarða. Orðalag þarf að vera skýrt svo ekki skapist vafi um ákvarðanir er varða menningarminjar. Nauðsynlegt er að eyða þeirri óvissu með því að taka það fram í frumvarpinu að lög um menningarminjar gildi um menningarminjar sem eru innan fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs.