Fara í efni

Garðurinn á Austurbakka: Merk heimild um atvinnu- og samgöngusögu Íslands

Garðurinn á lóð Austurbakka 2 er merk heimild um atvinnu- og samgöngusögu Íslands. Minjastofnun Íslands og fornminjanefnd telja því mikilvægt að varðveita hann eins vel og unnt er.

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913-17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. Tvær eimreiðar voru m.a. fluttar til landsins til að flytja jarðefni úr Öskjuhlíð og Skólavörðuholti. Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.

Garðurinn á lóð Austurbakka 2 er hluti þessara framkvæmda. Hann afmarkaði Tryggvagötu til sjávar og meðfram honum lá hluti járnbrautarteina einu járnbrautarinnar sem lögð hefur verið á Íslandi. Árið 1928 var járnbrautin lögð af, teinarnir teknir upp og Tryggvagata breikkuð m.a. með því að færa garðinn sjö metra út í höfnina - þó án þess að breyta hlutverki hans eða útliti. Garðurinn er hluti  mannvirkja sem eru mikilvægur þáttur í atvinnu- og samgöngusögu Íslands. Hafnargerðin gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu Reykjavíkurborgar og var forsenda fyrir þéttbýlisþróun í Reykjavík. Líta má á hafnargerðina í heild sinni sem fyrstu verklegu stórframkvæmd á Íslandi og þessi hluti hennar skiptir þar ekki minnstu máli.

Garðurinn er friðlýstur á forsendum þess að hann er hluti af  sögu hafnargerðarinnar 1913-1917. Breytir engu  þótt hann hafi verið færður um nokkra metra 1928. Má líkja tilfærslunni á garðinum við það þegar hús hafa verið færð á milli landshluta, stundum oftar en einu sinni, en halda samt sem áður sinni aldursfriðun og minjagildi. Sá hluti hafnargarðsins sem komið hefur í ljós er það heillegasta sem eftir stendur af hinu sögulega mannvirki. Þess vegna er hann mikilvægasta heimildin sem varðveist hefur um þessar merku framkvæmdir. Vesturendi hans tengdist Steinbryggjunni við enda Pósthússtrætis sem var borgarhlið höfuðstaðarins á árunum 1884-1939.

Lega garðsins, ásamt Tryggvagötu frá tollhúsinu að Geirsgötu, vitnar um fyrri tíðar strandlínu miðbæjarkvosarinnar og bæjarmynd Reykjavíkur í upphafi 20. aldar þar til fyllt var upp í bugtina milli Miðbakka og Austurbakka 1939. Staðsetning garðsins er því mikilvægur hluti minjagildis hans. Hleðslan er svipuð að gerð og aðrar hleðslur og garðar í höfninni frá sama tíma með tilhöggnu grjóti efst og grjóthnullungum neðar. Í garðinum eru járnkeðjur sem notaðar voru til að festa skip.

 

Ýmsir velta því fyrir sér hvers vegna verið sé að veita fjármagni í varðveislu fornleifa - íslenskar fornleifar séu ómerkilegar og standist engan veginn samanburð við það sem aðrar menningarþjóðir hafa látið eftir sig. Torfbær eða pýramídi, forn rétt eða hringleikahús – það vill svo til að þessar minjar eru jafn mikilvægar fyrir alþjóðasamfélagið. Þær eru minjar um sögu hvers samfélags fyrir sig og sagan skiptir máli eins og fjöldi alþjóðlegra samninga og stofnanir alþjóðlegar sem og landsbundnar eru til vitnis um.

Að hafa menningarminjar varðveittar í umhverfinu eykur lífsgæði okkar sem í því búa og gefur áþreifanlega tengingu við fortíðina. Án fortíðar væri nútíðin ekki til og við þurfum þekkingu á fortíðinni til að geta lært af henni og breytt betur til framtíðar. Menningarminjar skipta okkur miklu máli sem samfélag, ekki síst við uppbyggingu og sífellda endurskoðun sjálfsmyndar og ímyndar – inn á við og út á við.

Menningarminjar eru efnislegur vitnisburður um fortíðina. Rannsóknir á menningarminjum gefa okkur sýn inn í fortíðina, sýn sem oft er annars eðlis en sést í rituðum heimildum og upplýsir okkur um viðburði, fólk, siði og tækni sem annars voru gleymd. Menningarminjar eru ekki eingöngu nýttar til rannsókna eða til að gefa umhverfi okkar meira gildi heldur eru þær einnig nýttar sem uppspretta í listum, þær skapa efnahagslegan virðisauka í ferðaþjónustu og gagnast skólum í átthaga- og sögukennslu – það er auðveldara að læra um og fá tengingu við fortíðina í gegnum það sem er áþreifanlegt.