Fara í efni

Húsakannanir - áskorun

Husakannanir-askorun
Husakannanir-askorun

 

Með hliðsjón af ástandi efnahagsmála vill Húsafriðunarnefnd taka fram eftirfarandi:

Bæta má manngert umhverfi með fleiru en nýbyggingum einum saman. Í byggingararfi þjóðarinnar eru fólgin verðmæti úr fortíðinni, bæði menningarsöguleg og listræn, sem nýtast vel menningartengdri ferðaþjónustu. Þá er það löngu viðurkennt að það sé vitnisburður um menningarstig hverrar þjóðar, hvernig hún umgengst byggingararfinn. Með vandaðri húsakönnun er lagður grunnur að mati á varðveislugildi einstakra húsa, húsasamstæðna, byggðamynsturs, götumynda og hverfa. Þótt mörg sveitarfélög hafi á undanförnum áratugum látið kanna varðveislugildi eldri byggðar í því skyni að auðvelda vinnu við skipulag og ákvarðanatöku þar að lútandi, eru mörg þéttbýlissvæði sem enn bíða úrlausnar hvað þetta varðar.

Núgildandi lög um húsafriðun kveða á um að öll hús, sem reist eru fyrir 1850, skuli vera friðuð. Verði frumvarp til laga um menningarminjar, sem menntamálaráðherra ráðgerir að leggja fyrir Alþingi á næstunni, að lögum, mun friðuðum húsum fjölga verulega, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að öll mannvirki, sem byggð voru fyrir 1900, verði friðuð. Af þessum sökum er enn brýnna en áður að ráðast í gerð húsakannana.

Um leið og Húsafriðunarnefnd skorar á sveitarfélög og arkitekta að beina sjónum sínum að þessum málaflokki, tekur nefndin fram:

-  Húsafriðunarnefnd hefur látið taka saman leiðbeiningar um gerð húsakannana og gefið út á prenti. Ráðgert er að innan tíðar verði leiðbeiningar þessar í endurskoðaðri útgáfu aðgengilegar á heimasíðu nefndarinnar.

-  Þegar kemur að úthlutun styrkja úr húsafriðunarsjóði 2009 mun nefndin láta umsóknir um styrki til húsakannana hafa forgang og styrkja gerð þeirra eins og framast er kostur og fjárhagur sjóðsins leyfir.