Innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík hefur verið friðað
Fríkirkjuvegur 11
Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra að tillögu Húsafriðunarnefndar innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík, 30. maí 2012. Ytra byrði hússins var friðað 25. apríl 1978.
Athafnamaðurinn Thor Jenssen fékk Einar Erlendsson arkitekt til að teikna fyrir sig íbúðarhús sem hann reisti við Fríkirkjuveg 11 árið 1907. Þegar það var reist þótti húsið glæsilegasta íbúðarhús landsins. Auk fjölmargra atriða sem voru nýlunda á þeim tíma, s.s. vatns- og raflagnir, er innra byrðið vitnisburður um hið besta sem gert var á þessu sviði á fyrri hluta 20. aldar, hvort sem um er að ræða frágang á smíðum eða málun, sem unnin var af fyrstu lærðu íslensku málurunum. Það er því talið að um sé að ræða slíka gersemi að allri gerð, að húsið að Fríkirkjuvegi 11 skuli vera friðað í heild sinni.