Fara í efni

Klambrar í Vesturhópi sett inn á skrá yfir friðuð hús

Klambrar
Klambrar

 

Á fundi Húsafriðunarnefndar þann 15. júlí 2011 var lagt fram friðlýsingarskjal þáverandi þjóðminjavarðar, Þórs Magnússonar, frá 7. janúar 1982, þar sem fram kemur að steinveggir gamla hússins að Klömbrum skulu vera friðlýstir. Skjali þessu var þinglýst þann 3. maí 1982. 

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Þar sem sett hefur verið þak á húsið að Klömbrum í Vesturhópi og það verið endurbætt á góðan og faglegan máta, lítur Húsafriðunarnefnd svo á að húsið sé friðað. Mun það verða sett inn á skrá Húsafriðunarnefndar yfir friðuð hús á Íslandi. 

 

Júlíus Halldórsson héraðslæknir lét byggja íbúðarhúsið að Klömbrum. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið var byggt, né hver hinn snjalli steinsmiður var, en líklega hafa byggingarframkvæmdir hafist laust eftir 1880 og þeim lokið um 1885. 

Húsið er einlyft með risi, á háum kjallara. Útveggir eru hlaðnir úr lítt tilhöggnu grjóti, sem flutt var úr Nesbjörgum. Veggir eru einfaldir og veggjaþykkt er um 50 cm. Þeir voru múrhúðaðir að utan með sementsblöndu, sem einnig var notuð sem bindiefni. 

Íbúðarhús Júlíusar héraðslæknis þótti afar glæsilegt og húsakynni öll hin ríkmannlegustu. Í húsinu var bæði stássstofa og dagstofa sem þiljaðar voru innan með brjóstþili og strekktum striga á útveggjum en standandi þili á milliveggjum. Auk þess var apótek og sjúkrastofa í húsinu. Á rishæðinni var meðal annars korn- og mjölgeymsla og í kjallara var eldhús í miðju húsi, þar sem var stór eldavél, og búr með bekkjum og skápum. 

Þegar hafist var handa við endurbætur á húsinu í lok síðustu aldar hafði ekki verið búið í húsinu í um hálfa öld en þykkir steinveggir, auðar gluggatóttir og fúið tréverk báru vitni um stórhug og vandvirkni.

 

Heimildir: 

Júlíana Gottskálksdóttir. 1993. Klömbrur í Vestur-Hópi. Greinargerð með teikningum. 

Ljósmynd er fengin af heimasíðu Húnaþings vestra: http://www.hunathing.is/Starfsemi/Umhverfism%C3%A1l/Umhverfisvi%C3%B0urkenningar/tabid/1286/Default.aspx.