Lagabreytingar er varða friðuð og umsagnarskyld hús og mannvirki
Þann 30. desember 2022 tók gildi breyting á lögum nr. 80/2012 um menningarminjar er varðar aldursmörk friðaðra og umsagnarskyldra húsa og mannvirkja. Annars vegar féll úr gildi svokölluð hundrað ára regla um friðuð hús og er í dag miðað við fast ártal. Eftir breytingu hljóðar 1. mgr. 29. gr. laganna svo:
Öll hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr eru friðuð.
Hins vegar var gerð breyting á aldursmörkum umsagnarskyldra húsa og mannvirkja frá 1925 í 1940. Eftir breytingu hljóðar 1. mgr. 30. gr. laganna svo:
Eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1940 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, er skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.
Með lagabreytingunni bætast við u.þ.b. 8.700 umsagnarskyld hús og mannvirki á landsvísu sem Minjastofnun Íslands veitir umsagnir um. Fyrirspurnir varðandi umsagnarskylduna sendist á netfangið postur@minjastofnun.is