Menningararfsár Evrópu 2018
Þann 7. desember 2018 var haldin í Vínarborg í Austurríki lokahátíð Menningararfsárs Evrópu sem Evrópusambandið og Evrópuráðið stóðu að. Ísland tók þátt í Menningararfsárinu og voru haldnir af því tilefni 27 glæsilegir viðburðir hringinn um landið. Að viðburðunum stóðu söfn, stofnanir og samtök, áhugafólk og fagaðilar, og eiga allir sem að þeim komu heiður skilinn.
Tilgangur Menningararfsársins var að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur, m.a. í listum og nýsköpun. Þetta endurspeglast í einkunnarorðum ársins: Menningararfurinn, forn og nýr í senn. Menningararfsárinu var ætlað að auka gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög; að kynna auðugan og fjölbreyttan menningararf Evrópu og hvetja fólk til að ígrunda þann sess sem menningararfur hefur í lífi okkar allra og hvað við getum gert til verndunar hans.
Menningararfleifð okkar treystir bönd Evrópuþjóða með sameiginlegri sögu og gildum. Hún ber einnig vott um ríkar og fjölbreyttar menningarhefðir. Sameiginlegum menningararfi okkar ber að hampa, skilja og viðhalda. Þó er menningararfurinn ekki aðeins arfleið úr fortíðinni því hann greiðir einnig leiðina fram á við og mótar framtíðina.
Við vonumst til þess að Menningararfsárið hafi vakið áhuga landsmanna á menningarminjum og menningararfi og að sá áhugi haldi áfram að aukast á komandi árum. Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í Menningararfsárinu, viðburðahöldurum og þátttakendum, kærlega fyrir áhugann og þátttökuna, án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.