Fara í efni

Minjar í hættu á Reykjanesi

DJI_0929

Í ljósi gosóróa á Reykjanesi hefur Minjastofnun tekið saman upplýsingar um þær minjar sem vitað er um á svæðinu en hafa ekki verið skráðar á fullnægjandi hátt.

Svæðið sem lögð var áhersla á miðaði við fyrstu hraunrennslisspár jarðfræðideildar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar var gert ráð fyrir annars vegar hraunrennsli norður af Fagradalsfjalli og í kringum Keili, og hins vegar suður fyrir og út í sjó austan Grindavíkur.

Hraunflaedi-4.mars

Fimmtudaginn 4. mars fóru starfsmenn stofnunarinnar á Selatanga á sunnanverðu Reykjanesi og tóku myndir með flygildi og skoðuðu ástand minjanna þar. Selatangar eru, eins og sakir standa, einu friðlýstu minjarnar sem stafar hætta af mögulegu gosi. Sú staða getur þó breyst hratt því fleiri friðlýstar minjar er að finna vítt og breitt á Reykjanesinu.

Föstudaginn 5. mars fór hópur starfsmanna á vettvang og skipti sér í þrjú teymi. Tilgangur ferðarinnar var að mæla upp minjar sem vitað er um, taka nýjar ljósmyndir og myndir með flygildi ef veður leyfði. Eitt teymið fór suður fyrir nes og mældi upp minjar í landi Grindavíkur. Tvö teymi fóru suður fyrir Reykjanesbraut, vestarlega, og mældu upp sel og aðrar minjar á því svæði. Vinnan gekk vel þrátt fyrir rok, sudda og titrandi jörð. Enn á eftir að mæla upp fjölda minja á þessu svæði og mun skráningarvinnan halda áfram í þessari viku og þeirri næstu.

IMG_6240IMG_6147






Ljóst er að minjar í hættu við eldstöðvar eru þó víðar um land en á Reykjanesskaga en síðustu dagar hafa minnt okkur hressilega á þessa náttúruvá, eina af mörgum á eyjunni okkar. 

Gjasel

Gjásel var mælt upp í ferðinni en stærsta tóftin inniheldur átta rými eins og sést á kortinu.

Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu. Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig á ólíkum aldri. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum.

Fornleifaskráning hefur farið fram á hluta Reykjanesskaga og eftirfarandi skýrslur eiga við umrædd hættusvæði ef af gosi verður og hraun flæðir yfir.  Skýrslurnar voru notaðar við undirbúning vettvangsvinnunar síðustu daga.

Fornleifaskráning í Grindavík 3. áfangi 

Sveitarfélagið Vogar. Aðalskráning fornleifa. 1. áfangi

Sveitarfélagið Vogar. Aðalskráning fornleifa. 2. áfangi

Sveitarfélagið Vogar. Aðalskráning fornleifa. 3. áfangi