Ný stefna um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi
Á síðustu árum hefur farið fram mikilvæg vinna í að marka stefnu um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi. Vinnan við stefnuna hófst í lok árs 2020. Hún var að mestu mótuð á árinu 2021, en fullunnin um mitt ár 2022. Í upphafi var skipuð verkefnisstjórn sem í voru Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, Sandra Sif Einarsdóttir, varaformaður fornminjanefndar, og Hanna Rósa Sveinsdóttir, formaður húsafriðunarnefndar. Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri hjá Minjastofnun Íslands, var starfsmaður verkefnisstjórnar og leiddi vinnuna. Ráðgjafar frá fyrirtækinu Stratagem, þau Þórður Sverrisson og Ása Karin Hólm Bjarnadóttir, mótuðu verkefnið og stýrðu því. Vorið 2021 voru skipaðar nýjar fornminja- og húsafriðunarnefndir og fengu þá formenn nýrra nefnda sæti í verkefnisstjórninni, þau Andrés Skúlason, formaður fornminjanefndar, og Arnhildur Pálmadóttir, formaður húsafriðunarnefndar.
Öflugt samráð var haft við hagsmunaaðila, bæði innan minjavörslunnar og utan hennar. Markmið samráðsins var að fá fram ólík og fjölbreytt sjónarmið á þau málefni sem stefnan snýr að.
Minjastofnun Íslands þakkar verkefnisstjórninni fyrir vel unnið starf sem og öðrum aðilum sem komu að mótun stefnunnar.
Stofnunin hvetur alla hagsmunaaðila og áhugafólk um fornleifar og byggingararf að kynna sér nýju stefnuna.
Hægt er að sækja stefnuna rafrænt með því að smella á eftirfarandi hlekk: Stefna um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi.