Ný þekja á vefsjá Minjastofnunar Íslands, Fornleifaskráning, vinnuskrá
Við kynnum til leiks nýja þekju í vefsjánni okkar er nefnist Fornleifaskráning, vinnuskrá. Í þekjunni er að finna skráningargögn í formi punktastaðsetningar og í sumum tilvikum eru hlekkir á viðeigandi skráningaskýrslur. Þekjan hefur að geyma alls 13.775 fornleifar sem bætast við rúmlega 16.000 fornleifar sem voru fyrir í vefsjánni. Gögnin í þekjunni hafa borist Minjastofnun Íslands frá aðilum sem hafa sérhæft sig í skráningu menningarminja en síðan 1. janúar 2013 hefur verið skilaskylda á öllum skráningargögnum til stofnunarinnar, s.s. skráningarskýrslum og landupplýsingagögnum (punkta-, línu- og flákagögn). Gögnin í þekjunni hafa ekki verið yfirfarin af starfsfólki stofnunarinnar og ber því að taka þeim með fyrirvara. Í einhverjum tilfellum gætu mannleg mistök hafa átt sér stað við skráningu, svo sem villur við innslátt texta eða í hnitastaðsetningu.
Þekjan er í vinnslu og því eingöngu hugsuð sem tímabundin framsetning gagnanna en reiknað er með að gögnin sem í henni er að finna færist yfir í þekjurnar Friðaðar fornleifar og Friðlýstar fornleifar á vefsjánni þegar yfirferð er lokið. Gögnin í þekjunni uppfylla því ekki skilyrði til skipulagsgerðar eða í tengslum við framkvæmdir heldur eru eingöngu til viðmiðunar.
Vinna við þekjuna hófst í febrúar 2023 og er fyrsta útgáfa nú birt á vefsjánni í mars 2023. Vinna við uppfærslu og yfirferð á nýjum gögnum fer fram eftir því sem skráningargögn berast stofnuninni.
Athugið að vefsjáin inniheldur ekki tæmandi yfirlit um fornleifar, hús og mannvirki á Íslandi, sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Tákn þekjunnar: Fornleifaskráning, vinnuskrá
Opna vefsjá: Menningarminjar (gis.is).