Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hljóta Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2024
Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hlutu Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2024 á ársfundi stofnunarinnar í síðustu viku. Viðurkenninguna hljóta Snorri og Kristjana fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar á Íslandi sem speglast í áratugastarfi þeirra á sviði málunar á friðlýstum og friðuðum kirkjum og húsum.
Starfsferill Snorra spannar tæp 50 ár og þar af hefur Kristjana unnið með honum í meira en 20 ár. Sérsvið þeirra hjóna er innanhússmálun á friðlýstum og friðuðum kirkjum og húsum um land allt og er óhætt að segja að þau séu meðal fremstu sérfræðingar landsins á þessu sviði. Þau leggjast í rannsóknir á eldri málningarlögum og litasamsetningum og færa litaval og málningaráferð til upprunalegs horfs. Þau hafa sérhæft sig í viðar- og marmaramálun, gyllingu og alls kyns skreytingum ásamt vinnu með línolíumálningu og önnur efni fyrri tíma sem krefjast sérþekkingar og sérstakrar meðhöndlunar. Þau hafa unnið við málun og viðgerðir á að minnsta kosti 76 kirkjum víðsvegar um landið sem og við mörg hús í húsasafni Þjóðminjasafnsins í gegnum árin auk annarra friðlýstra húsa víðvegar um landið. Má þar nefna Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík, Jensenshús á Eskifirði, Sómastaði við Reyðarfjörð og Litla-bæ í Skötufirði við Ísafjarðardjúp. Í heimabænum Akureyri hafa þau unnið við málun á mörgum af elstu húsum bæjarins eins og Gamla spítala (Gudmanns Minde), Nonnahúsi, Friðbjarnarhúsi, Sigurhæðum, Menntaskólanum (Gamla skóla), Samkomuhúsinu auk annarra húsa í einkaeigu. Sem dæmi um ástríðu fyrir handverkinu er að þau skildu eftir litaspjöld fyrir öll gömlu húsin í eigu Akureyrarbæjar til að vandað yrði til verka við málum þeirra til framtíðar.Öll þau hús sem þau hafa tekið að sér eru þjóðarprýði og bera hæfileikum þeirra fagurt vitni.
Minjastofnun Íslands þakkar Snorra og Kristjönu kærlega fyrir mikilvægt framlag til minjaverndar á Íslandi undanfarna áratugi!