Fara í efni

Starf arkitekts auglýst laust til umsóknar

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem fer með umsýslu jarðfastra menningarminja í umboði mennta- og menningarmálaráðherra. Stofnunin hefur umsjón með fornleifa- og húsvernd á Íslandi og veitir m.a. leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna. Hún lætur eftir föngum skrá allar jarðfastar minjar, hús, mannvirki og fornleifar og styður við rannsóknir og vernd minja. Stofnunin gefur umsagnir vegna skipulagsvinnu, umhverfismats og breytinga á friðuðum og friðlýstum húsum. Minjastofnun Íslands sér einnig um leyfisveitingar varðandi útflutning á gripum og sýnum úr fornleifauppgröftum og menningarminjum úr einkaeign. Tveir sjóðir eru í umsjón stofnunarinnar: fornminjasjóður og húsafriðunarsjóður. Þá fer Minjastofnun Íslands með umsýslu fornminja- og húsafriðunarnefnda. Minjastofnun Íslands starfar á grundvelli laga um menningarminjar nr. 80/2012.

Minjastofnun Íslands auglýsir laust til umsóknar starf arkitekts.

Ábyrgð og verksvið:

Arkitektinn veitir umsagnir vegna deiliskipulaga og breytinga og viðhalds húsa sem falla undir lög nr. 80/2012. Hann stýrir umsjón, eftirliti og/eða eftirfylgni framkvæmda vegna húsa sem njóta styrkja úr húsafriðunarsjóði. Arkitektinn veitir einstaklingum og framkvæmdaaðilum ráðgjöf um húsvernd.

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

Leitað er að einstaklingi með háskólapróf á sviði arkitektúrs/byggingarlistar. Staðgóð þekking á byggingartækni og lagaumhverfi byggingar- og skipulagsmála er nauðsynleg. Reynsla af hönnun bygginga, byggingarsögulegum rannsóknum, endurbyggingu eldri húsa, skipulagsmálum og minjavernd er nauðsynleg. Þekking á lagaumhverfi byggingar- og skipulagsmála er mikilvæg.

Tölvuþekking og færni til að vinna með gagnagrunna og upplýsingakerfi er nauðsynleg.

Frumkvæði og sjálfstæði í starfi, öguð vinnubrögð og færni í mannlegum samskiptum skilyrði.

Krafa er gerð um góða kunnáttu í íslensku, ensku og helst einu Norðurlandamáli, jafnt töluðu sem rituðu máli.

Um er að ræða fullt starf frá 1. október. Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Umsókn með ferilskrá sendist Minjastofnun Íslands, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík, eigi síðar en 15. ágúst n.k. Upplýsingar veitir Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður (kristinhuld@minjastofnun.is) eða í síma 5701300 og Pétur Ármannsson sviðsstjóri (petur@minjastofnun.is) , sími 5701300.