Fara í efni

Tómasarhagi 16 B í Reykjavík friðaður

Tómasarhagi 16b
Tómasarhagi 16b


Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, steinbæinn að Tómasarhaga 16b í Reykjavík, 8. febrúar 2012, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Tímamót urðu í byggingu steinhúsa þegar Alþingishúsið var byggt á árunum 1880−1881. Íslendingar lærðu þar iðnina að höggva til grjót. Á árunum 1880−1900 voru allmörg steinhús byggð í Reykjavík. Varð þá til ný húsagerð, steinbæir, sem á skömmum tíma varð algeng í Reykjavík. Það voru einkum tómthúsmenn sem byggðu sér steinbæi til íbúðar en áður bjuggu þeir í torfbæjum. Segja má að lag torfbæjarins hafi þarna verið lagað að nýjum aðstæðum og er hér um sérreykvískt fyrirbæri að ræða. Á þessum tíma voru einnig byggð allmörg lítil íbúðarhús úr steini. Munurinn á þeim og steinbæjum er sá að í litlu steinhlöðnu húsunum eru allir veggir byggðir úr tilhöggnu grágrýti. Segja má að með þessari sérreykvísku húsagerð hafi fyrstu þéttbýlisalþýðu Íslands, sem á þessum árum var að slíta sig undan vistarbandinu, verið kippt inn í nútímann, þar sem þá buðust betri og varanlegri húsakynni en fram að þeim tíma höfðu þekkst. Alls voru hlaðin um 200 hús úr grágrýti í Reykjavík á tímabilinu frá 1860 til 1910 − um 130 steinbæir og 70 hús. Síðan hafa steinbæir og steinhlaðin hús verið að týna tölunni, og er nú svo komið að einungis 17 steinbæir og 18 steinhlaðin hús standa enn í Reykjavík.

Einn þessara steinbæja er Litlibær sem stendur við Tómasarhaga 16b. Friðun hans nær til ytra byrðis bæjarins.

Árið 1893 var Einari Gamalíelssyni leyft að byggja  hús með langhliðum úr tilhöggnu grágrýti á lóð Litlabæjar á Grímsstaðaholti. Árið 1896 seldi hann Halldóri Jónssyni frá Saltvík á Kjalarnesi bæinn með tilheyrandi lóð. Halldór lauk við byggingu steinbæjarins þá um haustið. Bærinn var með steinveggjum en járnklæddum timburstöfnum. Kjallari var undir öllum bænum. Síðan hefur verið byggt nokkrum sinnum við steinbæinn, ýmist úr steinsteypu eða timbri.

Halldór og kona hans Guðbjörg Magnúsdóttir, sem ættuð var úr Skorradal, voru með kúabú í Litlabæ. Mjólkina fluttu þau á hestvagni yfir Melana, sem þá voru óbyggðir, og seldu í Reykjavík. Búskapur í Litlabæ lagðist af fyrir miðja síðustu öld, en Guðbjörg lést árið 1944 og Halldór árið 1952.

 

Heimildir:

Freyja Jónsdóttir (1996, 23. febrúar). Tómasarhagi 16 B (Litlibær). Tíminn, bls. 6.

Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur – Árbæjarsafns.