Topphóll í Nesjum
Að undanförnu hafa málefni Topphóls verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum þar sem hann, samkvæmt skipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, á að víkja vegna vegagerðar. Af gefnu tilefni vill stofnunin koma eftirfarandi á framfæri.
Í tengslum við umhverfismat vegna vegagerðar um Hornafjarðarfljót voru fornleifar skráðar á áhrifasvæði framkvæmdanna (skýrslan gefin út 2006). Þau gögn lágu til grundvallar ákvarðanatöku um vernd minja á svæðinu. Í fornleifaskrám er Topphóll ekki skráður sem fornleifar.
Árið 2023 barst Minjastofnun ábending um að í örnefnaskrá Dilksness frá árinu 1973 hefði Topphóll verið kallaður álfakirkja. Í 3. gr. laga um menningarminjar er kveðið á um að minjar eldri en 100 ára séu friðaðar og m.a. getur það átt við „álagabletti og aðra staði og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð“.
Topphóll er náttúrulegur að öllu leyti og engin mannaverk eru á honum. Ef ekki liggja fyrir þjóðsögur eða umfjöllun í ritum sem eru eldri en 100 ára um að hóllinn sé álfakirkja þá er ekki hægt að staðfesta að um fornleifar sé að ræða skv. lögum. Heimildakönnun fór fram eftir að ábendingin barst. Menningarmiðstöð Hornafjarðar tók saman greinargerð um Topphól en hún sýndi ekki fram á að um fornleifar væri að ræða. Sömuleiðis var minjavörður Austurlands í sambandi við heimamenn og staðkunnuga en ekkert kom heldur fram við þá athugun til staðfestingar.
Benda má á að í þjóðsagnagrunni Árnastofnunar (sjá hér: http://sagnagrunnur.arnastofnun.is/is/ ) er að finna þrjár sagnir sem tengjast Dilksnesi, en engin þeirra er um Topphól eða álfa. Mikill fjöldi tímarita frá fyrri tíð eru aðgengileg á https://timarit.is/ og ef leitarorðin „Hafnarvegur“, „Dilksnes“ eða „Topphóll“ eru slegin inn kemur ýmislegt fram, m.a. um vegagerð þar á fyrri tíð en ekkert um álfhólinn Topphól.
Miðað við fyrirliggjandi gögn flokkast Topphóll ekki til fornleifa og heyrir hóllinn því ekki undir stjórnsýslu Minjastofnunar lögum samkvæmt. Stofnunin tekur því ekki ákvörðun um hvort hóllinn standi eða fari. Eðlilegast hefði verið að tryggja varðveislu hólsins með hverfisvernd í skipulagi.