Vel heppnuð ráðstefna um strandminjar í hættu
Ráðstefna um strandminjar í hættu sem Minjastofnun stóð fyrir síðastliðinn laugardag, 18. apríl, ásamt áhugafólki um minjar í hættu heppnaðist vel. Vill stofnunin þakka öllum þeim sem ráðstefnuna sóttu og ekki síður fyrirlesurum og því áhugafólki sem átti frumkvæðið að ráðstefnunni.
Á milli 80 og 90 manns mættu og hlýddu á fimm erindi auk opnunarræðu forsætisráðherra. Að lokum tóku ráðstefnugestir þátt í umræðum, undir styrkri stjórn Eyþórs Eðvarðssonar, sem snerust um spurninguna: hvað svo? Voru fundargestir sammála um að skráning væri mikilvægasta verkefnið sem ráðast þyrfti í, og það sem allra fyrst.
Nú þarf að huga að næstu skrefum og halda boltanum á lofti því ráðstefnan er einungis fyrsta skrefið í langferð til framtíðar.
Ráðstefnan var tekin upp og verða erindin gerð aðgengileg hér á heimasíðu stofnunarinnar um leið og myndbandið hefur verið unnið.