Fara í efni

Verkefni íslensks grunnskólanema eitt af tíu bestu í European Heritage Makers Week

Í vor stóð Minjastofnun Íslands fyrir Menningarminjakeppni grunnskólanna í tilefni af Menningararfsári Evrópu 2018. Menningarminjakeppnin er hluti af stærri viðburði Evrópuráðsins, European Heritage Makers Week. Í Menningarminjakeppnina bárust sjö verkefni frá tveimur skólum: Grunnskólanum á Drangsnesi og Grunnskóla Fjallabyggðar.

Úrslit í Menningarminjakeppni grunnskólanna voru tilkynnt fimmtudaginn 5. júlí og hreppti Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, nemandi í 6. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi, fyrsta sætið. Vinningsverkefni Magndísar er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð á meðan hún var starfrækt á sautjándu öld.

Öll verkefnin sem bárust í Menningarminjakeppnina voru send út í European Heritage Makers Week. Alls bárust þangað 82 verkefni frá átta löndum.

Nú hefur verið tilkynnt hvaða tíu verkefni í European Heritage Makers Week hafa verið valin bestu verkefnin af þeim 82 sem bárust og er verkefni Magndísar Hugrúnar Valgeirsdóttur eitt af þeim. Magndís hlýtur að launum ferð til Strassborgar í nóvember þar sem unga fólkið á bak við verkefnin tíu munu hittast, fara saman í skoðunarferðir og vonandi skapa saman nýjar sögur.

 Img_3837

Á myndinni má sjá Magndísi Hugrúnu taka við verðlaunum fyrir fyrsta sæti í Menningarminjakeppni grunnskólanna. Með henni á myndinni eru Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála hjá Mennta- og menningamálaráðuneytinu, og Þór Hjaltalín, sviðsstjóri minjavarðasviðs hjá Minjastofnun Íslands.

Minjastofnun óskar Magndísi Hugrúnu innilega til hamingju með þennan frábæra árangur!


Hér má sjá heimasíðu European Heritage Makers Week.

Hér má sjá frekari upplýsingar um Menningarminjakeppni grunnskólanna.