Viðurkenning Minjastofnunar 2018
Minjastofnun Íslands veitti landeigendum á Láganúpi og í Kollsvík, bræðrunum Valdimari, Guðbjarti, Hilmari, Agli og Kára Össurarsonum, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2018. Viðurkenningin er veitt fyrir metnaðarfullt grasrótarstarf við varðveislu og miðlun menningararfs í Kollsvík. Þetta er í þriðja sinn sem slík viðurkenning er veitt í tengslum við ársfund stofnunarinnar. Árið 2015 hlaut Vegagerðin viðurkenninguna fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum og árið 2017 hlaut Djúpavogshreppur viðurkenningu fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar, en verndarsvæði við Djúpavog var fyrsta tillagan að verndarsvæði í byggð sem staðfest var á Íslandi.
Á meðal þeirra verkefna sem landeigendur í Kollsvík, með Valdimar Össurarson í fararbroddi, hafa unnið í þágu menningarminja á svæðinu, er gerð heimasíðunnar kollsvik.is þar sem finna má fjölbreyttan fróðleik um sögu, náttúru og minjar í víkinni.
Einnig hafa þeir séð um merkingu gönguleiða í Kollsvík og uppsetningu fræðsluskilta um sögu, fornminjar og mannvirki ásamt söfnun upplýsinga um óáþreifanlegan arf á borð við örnefni, þjóðhætti og safn málfarssérkenna sem varðveist hafa á svæðinu.
Jafnframt hafa þeir staðið að varðveislu og viðhaldi gamalla mannvirkja í Kollsvík og hafa hlotið styrki úr húsafriðunarsjóði til tveggja slíkra verkefna.
Annars vegar til endurbyggingar steinhlaðins torfkofa; Hesthússins á Hólum í landi Láganúps sem líkur eru til að upphaflega hafi verið reistur um miðja 17. öld. Ekki er vitað um eldra hús á landinu sem staðið hefur frá upphafi, og þjónað sínu hlutverki fram á þennan dag.
Hins vegar hafa þeir hlotið styrk til viðhalds hlaðinna garða á Grundabökkum í landi Láganúps, þaðan sem útgerð hófst mjög snemma. Garðar eru örnefni yfir hinn mikla og forna garð sem liggur með sunnanverðum Grundabökkum í landi Láganúps. Þar var áður Láganúpsver, sem um margar aldir var ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða, en lagðist af í byrjun 18. aldar. Útgerð hófst síðar í Kollsvíkurveri, norðar í Kollsvíkinni. Fyrsta gerð garðanna má ætla að sé mjög forn en þeir voru hlaðnir í núverandi mynd um aldamótin 1900. Garðarnir hafa gegnt mismunandi hlutverkum tengdum sjósókn og búskap á jörðinni, meðal annars sem vörslugarðar, aðhald til fjárrekstra, þurrkgarðar, skjólgarðar, matjurtagarðar og skotbyrgi.
Nú síðast hafa aðstandendur svæðisins hlotið framlag úr samgönguáætlun árið 2018, til að koma upp sjóvarnargarði til verndunar áðurnefndum görðum og annarra minja við Láganúpsver í sunnanverðri Kollsvík.
Þetta framtak bræðranna úr Kollsvík má heita einstakt og er til mikillar fyrirmyndar. Það var því með mikilli ánægju sem Minjastofnun Íslands veitti þeim þessa viðurkenningu.
Saga Kollsvíkur
Kollsvík er nyrst þriggja víkna sem nefnast Útvíkur, en hinar eru Látravík (Hvallátrar) og Breiðavík. Þær liggja fyrir opnu hafi yst á syðsta og vestasta skaga Vestfjarða, milli Blakks og Bjargtanga. Í Kollsvík eru nú tvö lögbýli, Kollsvík og Láganúpur, og hafa báðar jarðir að líkindum verið í byggð frá landnámsöld en smærri hjáleigur og þurrabúðir hafa þar verið um lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Grænumýri, Tröð, Stekkjarmel, Grund, Grundabakka, Grundir, Hóla, Gestarmel og Berg auk heilsárs búsetu í verbúðum.
Kollsvík kemur fyrst fyrir í landnámu þar sem segir frá landnámi Kolls fóstbróður Örlygs Hrappsonar á Esjubergi. Kollur braut skip sitt við Kollsvík og stofnaði þar minnsta frumlandnám Íslands. Kollsvíkur er næst getið í skjölum frá 15. öld og víða síðan. Elsti forfaðir þess fólks sem kennir sig við svokallaða Kollsvíkurætt sem fjölmennust hefur verið í Kollsvík síðastliðin 100 ár, var Einar Jónsson sem talið er að hafi búið á Láganúpi frá því um 1790 – 1836. Síðan var þar óslitin búseta sömu ættar þar til 2002 er heilsársbúsetu lauk í víkinni eða í 212 ár.
Meginstoðir undir tilveru fólks í Kollsvík hafa í gegnum tíðina verið sjósókn og landbúnaður. Var Kollsvík um aldir ein stærsta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum og þangað fjölsótt í ver; ekki síst úr norðurbyggðum Breiðafjarðar og nálægum fjörðum. Allar líkur benda til þess að á blómatíma skreiðarverkunar; milli 1300 og 1600, hafi mjög stór verstöð verið í Kollsvík, en dregið hafi úr henni á 17. og 18. öld. Íbúafjöldi í Kollsvík var yfir 90 framan af 19. öld. Þegar við hann bættust aðkomnir vermenn yfir vertímann má ætla að í Kollsvíkinni hafi þá verið kringum 150 manns; jafnvel fleiri. Útgerð frá hafnlaustri ströndinni í Kollsvík byggðist á árabátum og tiltækum mannafla og var erfið og áhættusöm. Með vélbátavæðingu á 20. öld færðist útgerðin því fljótt til Patreksfjarðar og annarra hafnarstaða. Á sama tíma kom til vélvæðing í landbúnaði sem eftir það krafðist minni mannafla og um miðja 20. öldina fjaraði því fljótt undan þessari fjölmennu byggð. Áfram var þó blómlegur búskapur um skeið. Til 1962 voru t.d. þrjú stór býli í Kollsvík, en fækkaði þá í tvö og síðan í eitt árið 1971. Síðustu ábúendur í Kollsvík brugðu búi árið 2002. Þar með lagðist Kollsvík í eyði en afkomendur þeirra Össurar og Sigríðar á Láganúpi hafa síðan sinnt varðveislu, skráningu og miðlun minja um sögu og sérstæða menningu í Kollsvík af metnaði og fagmennsku.