Viðurkenningar í þágu húsverndar
Í fyrra tók Húsafriðunarnefnd upp þá nýjung að veita viðurkenningu fyrir störf að húsverndarmálum og beindi þá sjónum sínum að varðveislu á gömlum verslunarinnréttingum og hvernig mætti nýta þær við nútímalegar aðstæður. Núna hefur nefndin ákveðið að vekja athygli á merku brautryðjendastarfi, sem unnið er úti á landsbyggðinni – oft við erfiðar aðstæður og takmarkaðan skilning – og heiðra tvo aldna forvígismenn húsverndar á Eskifirði, þá Hilmar Bjarnason og Geir Hólm.
Eljusemi þessara manna og barátta fyrir verndun varðveisluverðrar byggðar og húsa hafði margvísleg áhrif á Eskifirði. Má þar nefna gerð húsakönnunar en niðurstöður hennar voru notaðar til að afmarka og skilgreina hverfisvernd í aðalskipulagi bæjarins, þá fyrstu hér á landi.
Hilmar Bjarnason átti frumkvæði að því að varðveitt voru eftirtalin þrjú hús á Eskifirði: Gamla-búð (byggð 1816), Randulfssjóhús (byggt 1882/1890) og Jensenshús (byggð 1837). Árið 1966 hóf hann að tala fyrir húsvernd og á vettvangi Byggðarsögunefndar Eskifjarðar vann hann að varðveislu umræddra húsa af alúð, ósérplægni og dæmafárri þrautseigju.
Geir Hólm sá um lokafrágang á Gömlu-búð, endurbyggingu Randulfssjóhúss ásamt tilheyrandi bryggju og bar hitann og þungann af endursmíð Jensenshúss. Auk þess sá hann um endurnýjun vitans á Dalatanga, tryggði varðveislu Sómastaða við Reyðarfjörð, mældi og teiknaði Eskifjarðarkirkju og kaupmannshúsið í Útkaupstað og smíðaði stórt líkan af byggðinni á Eskifirði. Hann veitti Sjóminjasafni Austurlands forstöðu um árabil.
Þorsteinn Gunnarsson formaður Húsafriðunarnefndar
Nikulás Úlfar Másson forstöðumaður Húsafriðunarnefndar