Fara í efni

Fornminjasjóður

Hlutverk fornminjasjóðs er að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum

Úthlutað er styrkjum til eftirfarandi verkefna: 

  • Fornleifarannsókna (fornleifauppgraftar og fornleifaskráningar)
  • Miðlunar upplýsinga um fornminjar
  • Varðveislu og viðhalds fornminja, þ.e. fornleifa og forngripa
  • Rannsókna á forngripum

Sjóðnum er jafnframt heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja.

Nánar um umsóknir

Úthlutunarreglur fornminjasjóðs

1. gr. Hlutverk fornminjasjóðs.
Um fornminjasjóð gilda ákvæði X. kafla, 42. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 ásamt c- og d-lið 8. gr. sömu laga. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum.

2. gr. Úthlutanir úr fornminjasjóði.
Úthlutanir úr fornminjasjóði eru á hendi Minjastofnunar Íslands að fenginni umsögn fornminja-nefndar. Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs og menningarsögulegs gildis og þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í minjavernd, ásamt gildi þeirra fyrir varðveislu þjóðararfleifðarinnar.
Úthlutað er styrkjum til eftirfarandi verkefna samkvæmt vinnureglum fornminjasjóðs:

  • Fornleifarannsókna (fornleifauppgraftar og fornleifaskráningar).
  • Miðlunar upplýsinga um fornleifarannsóknir.
  • Varðveislu og viðhalds fornminja, þ.e. fornleifa og forngripa.
  • Rannsókna á forngripum.

Sjóðnum er jafnframt heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja. Minjastofnun Íslands og fornminjanefnd ákveða í samráði þriggja ára áætlun um áherslur í úthlutunum sjóðsins. Áætlunin er endurskoðuð árlega, fyrir lok maí hvers árs.

3. gr. Auglýsing um styrki úr fornminjasjóði.
Minjastofnun Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki á heimasíðu sinni, í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Auglýsing skal birt að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir auglýstan umsóknarfrest.

4. gr. Almennt um umsóknir.
Umsóknum um styrki úr sjóðnum skulu fylgja greinargóðar upplýsingar um fyrirhuguð verkefni á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Séu umsóknir ekki skilmerkilega útfylltar og í samræmi við leiðbeiningar Minjastofnunar Íslands getur stofnunin vísað þeim frá.
Allar umsóknir um fornleifauppgröft þurfa að innihalda áætlun um úrvinnslu og meðhöndlun gagna. Allar umsóknir um skip og báta skulu innihalda upplýsingar úr varðveislumati viðkomandi skips/báts. Sé fyrirhugað að sækja um styrk til verkefnis sem taka mun fleiri en eitt ár að vinna skal umsækjandi gera grein fyrir heildarmarkmiðum verkefnis, áfangaskiptingu og kostnaðaráætlun fyrir heildarverkefnið. Einnig skal skila ítarlegri rannsóknaráætlun fyrir það ár sem sótt er um hverju sinni. Minjastofnun Íslands er með styrkveitingu ekki skuldbundin til að veita styrki til síðari áfanga verkefnis.
Minjastofnun Íslands er heimilt að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum eftir því sem þurfa þykir.

5. gr. Um mat á umsóknum
Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs og menningarsögulegs gildis og gildi þeirra fyrir varðveislu þjóðararfleifðarinnar. Einnig er tekið mið af þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í minja-vernd sem og þriggja ára áhersluáætlun.
Fornminjanefnd styðst við samþykktar vinnureglur nefndarinnar við mat á umsóknum.
Allar umsóknir ásamt umsögn fornminjanefndar um þær eru lagðar fyrir Minjastofnun Íslands sem tekur ákvörðun um veitingu styrkja úr fornminjasjóði. Ákveði Minjastofnun Íslands að víkja frá mati fornminjanefndar skal rökstyðja frávikið skriflega. Fornminjanefnd skal upplýst um það ef vikið verður frá mati nefndarinnar við ákvörðun um úthlutun og afhentur rökstuðningur Minjastofnunar Íslands fyrir þeirri ákvörðun.

6. gr. Greiðslur styrkja.
Minjastofnun Íslands gerir samning við styrkþega um greiðslu styrks úr fornminjasjóði þar sem kveðið er á um greiðslufyrirkomulag styrksins og aðrar skyldur samningsaðila. Í kjölfar undirritunar samningsins fær styrkþegi fyrstu greiðslu styrksins, í samræmi við ákvæði samningsins.
Skrifi styrkþegi ekki undir samning og móttaki fyrstu greiðslu styrks á sama ári og honum er tilkynnt um úthlutun fellur ákvörðun um styrkveitingu niður. Styrkþegi getur vegna sérstakra aðstæðna óskað eftir fresti á fyrstu greiðslu styrks til næsta árs frá úthlutun. Skal skrifleg beiðni þess efnis með rökstuðningi berast Minjastofnun fyrir lok úthlutunarárs.
Skilyrði fyrir lokagreiðslu styrks er að styrkþegi hafi unnið verkefnið skv. samningi þar um og skilað lokaskýrslu eða áfangaskýrslu sem Minjastofnun Íslands hefur samþykkt.
Heimilt er að krefjast endurgreiðslu styrks hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012, reglur nr. 621/2019 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér, ákvæði samnings um styrkveitingu og þau gögn sem styrkveiting var byggð á.

7. gr. Eftirlit Minjastofnunar Íslands
Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með því að styrkir hafi verið notaðir til þess sem þeir voru veittir. Einnig hefur stofnunin eftirlit með því að þau verkefni sem hún styrkir séu í samræmi við innsend gögn, ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012 og reglur nr. 621/2019 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sé.
Fulltrúi Minjastofnunar skal eiga greiðan aðgang að vinnustað meðan á verkefni stendur. Styrkþegum er skylt að kynna Minjastofnun stöðu verksins sé þess óskað og afhenda öll gögn tengd verkefninu stofnuninni að kostnaðarlausu.
Sé verkefni ekki unnið í samræmi við innsend gögn, ákvæði laga nr. 80/2012 um menningar-minjar, þá staðla og reglur sem Minjastofnun hefur sett eða gögnum ekki skilað í samræmi við framangreint getur það haft áhrif við mat á öðrum umsóknum styrkþega í fornminjasjóð.

Staðfest af umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, 12. október 2022.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
__________
B-deild – Útgáfudagur: 16. nóvember 2022

Sækja pdf skjal

Styrkúthlutanir

Styrkir 2024 Styrkir 2023 Styrkir 2022 Styrkir 2021
Styrkir 2020 Styrkir 2019 Styrkir 2018 Styrkir 2017
Styrkir 2016 Styrkir 2015 Styrkir 2014 Styrkir 2013