Umsóknir í húsafriðunarsjóð
Umsóknir í húsafriðunarsjóð eru metnar með tilliti til varðveislugildis, t.d. vegna byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, upprunaleika og tæknilegs ástands ásamt gildi hennar fyrir varðveislu byggingararfleifðarinnar. Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr sjóðnum að fenginni umsögn húsafriðunarnefndar. Styrkir úr sjóðnum eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur nr. 577/2016 og mikilvægt að kynna sér reglurnar vel áður en sótt er um í sjóðinn.
Umsóknarfrestur í húsafriðunarsjóð 2025.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir árið 2025 og er umsóknarfrestur til miðnættis 1. desember 2024. Til þess að sækja um smellið á viðeigandi hnapp hér fyrir neðan og fyllið út umsókn. Athugið að lesa vel leiðbeiningar sem eru hér neðar á síðunni áður en umsóknir eru fylltar út.
Umsóknir fara í gegnum umsóknakerfi Stafræns Íslands - island.is og því þarf að notast við rafræn skilríki í umsóknarferlinu. Þau sem ekki hafa rafræn skilríki geta haft samband við Minjastofnun Íslands á netfangið husafridunarsjodur@minjastofnun.is og beðið um undanþágu.
Allar almennar fyrirspurnir varðandi umsóknir skulu berast á husafridunarsjodur@minjastofnun.is
Umsókn um styrk fyrir byggingarsögulega rannsókn
Umsókn um styrk til að gera tillögu að verndarsvæði í byggð
Umsókn um styrk til áætlunargerðar og/eða framkvæmda við hús eða mannvirki
Nánari leiðbeiningar við gerð umsókna (pdf skjöl)
Umsókn um styrk til áætlunargerðar og/eða framkvæmda við hús eða mannvirki
Úthlutunarreglur
1. gr. Hlutverk húsafriðunarsjóðs.
Hlutverk húsafriðunarsjóðs er að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja. Sjóðurinn veitir styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds og verndunar annarra mannvirkja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi sem og annarra verkefna er stuðla að verndun byggingararfsins og annarra mannvirkja. Sjóðnum ber að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum, þar með talið skráningu húsa og mannvirkja, og miðlun upplýsinga um þær.
Um húsafriðunarsjóð gilda ákvæði X. kafla, 43. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012 ásamt c- og d-lið 9. gr. sömu laga.
2. gr. Styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði.
Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr húsafriðunarsjóði að fenginni umsögn húsafriðunarnefndar, sbr. d-lið 9. gr. laga nr. 80/2012. Sækja skal um styrk á þar til gerðum eyðublöðum. Ef umsókn er ekki fullnægjandi að mati Minjastofnunar Íslands, skal viðkomandi gefinn kostur á að lagfæra hana að öðrum kosti skal hún ekki tekin til greina.
Umsóknir eru metnar með tilliti til varðveislugildis, t.d. vegna byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, upprunaleika og tæknilegs ástands ásamt gildi hennar fyrir varðveislu byggingararfleifðarinnar.
Nýti styrkþegi sér ekki úthlutaðan styrk á sama ári og honum er úthlutað, fellur styrkur niður. Heimilt er, vegna sérstakra aðstæðna, að veita frest til greiðslu styrks til loka næsta árs á eftir úthlutun, enda hafi borist formleg beiðni þess efnis frá styrkþega til Minjastofnunar Íslands fyrir lok úthlutunarárs eða Minjastofnun Íslands veitt til þess sérstaka heimild við úthlutun styrkja.
Úthlutun styrkja skal að öðru jöfnu ákveðin fyrir 15. mars ár hvert.
3. gr. Auglýsing um styrki húsafriðunarsjóðs.
Minjastofnun Íslands skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr húsafriðunarsjóði eigi síðar en 15. október ár hvert vegna styrkja næsta árs. Þó er heimilt að efna til auka úthlutana í sérstökum tilvikum. Auglýsa skal eftir umsóknum í fjölmiðlum, Lögbirtingablaði, Sveitarstjórnarmálum og á heimasíðu Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun Íslands getur ákveðið, í samráði við húsafriðunarnefnd, að leggja áherslu á ákveðna þætti minjaverndar í úthlutun ársins.
4. gr. Almennt um umsóknir.
Umsóknum um styrki úr sjóðnum skulu fylgja greinargóðar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir. Séu umsóknir ekki skilmerkilega útfylltar eða í samræmi við kröfur getur Minjastofnun Íslands vísað þeim frá. Minjastofnun Íslands er heimilt að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum eftir því sem þurfa þykir áður en til úthlutunar kemur.
Umsóknir skulu berast Minjastofnun Íslands innan auglýsts umsóknarfrests.
Sé fyrirhugað að framkvæma verk sem sótt er um styrk til á mörgum árum skal umsækjandi gera grein fyrir áfangaskiptingu við verkið í heild sinni og kostnaði við það. Heimilt er að sækja um styrki fyrir aðra áfanga við næstu styrkveitingu. Minjastofnun Íslands er með styrkveitingu ekki skuldbundin til að veita styrki til seinni áfanga verksins.
5. gr. Greiðslur styrkja.
Minjastofnun Íslands gerir að öllu jöfnu samning um greiðslu styrks úr húsafriðunarsjóði, þar sem kveðið er á um greiðslufyrirkomulag styrksins. Sé styrkupphæð 1,5 m.kr. eða lægri er ekki gerður samningur um greiðslu styrks en þess í stað gefið út styrkbréf með upplýsingum um greiðslu styrks og skilyrði fyrir lokagreiðslu.
Skilyrði fyrir lokagreiðslu styrks er að styrkþegi hafi skilað lokaskýrslu eða áfangaskýrslu sem Minjastofnun Íslands hefur samþykkt.
6. gr. Eftirlit Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að styrkir hafi verið notaðir til þess sem getið var í umsóknum. Styrkþegum er skylt að kynna fulltrúa stofnunarinnar stöðu verksins sé þess óskað og afhenda henni eintak af uppdráttum og áætlunum stofnuninni að kostnaðarlausu.
Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að þær framkvæmdir sem hún styrkir séu viðunandi af hendi leystar og í samræmi við innsend gögn. Stofnunin eða fulltrúi hennar skal eiga greiðan aðgang að vinnustað meðan á framkvæmdum stendur.
Komi í ljós að styrk úr sjóðnum hafi ekki verið varið í tilgreindar framkvæmdir eða vikið hafi verið frá upplýsingum í umsókn, skal styrkþegi endurgreiða styrkinn þegar í stað.
Samþykkt á fundi húsafriðunarnefndar þann 22. janúar 2016.
__________
B-deild – Útgáfud.: 29. júní 2016
Beiðni um greiðslu styrkja og umboðseyðublöð
Framkvæmd og styrkgreiðslur
Áður en að framkvæmd kemur skal styrkþegi leita samráðs og samþykkis Minjastofnunar Íslands á tilhögun verksins. Ef um byggingaleyfisskylda framkvæmd er að ræða skal senda Minjastofnun Íslands rafrænt afrit af uppdráttum og verkteikningum (þ.e. sömu gögn og senda þarf til byggingafulltrúa). Þetta á einnig við þó teikningar hafi verið sendar með styrkumsókn. Til hliðsjónar skal hafa ritröð húsafriðunarnefndar um viðhald og endurbætur friðaðra og varðveisluverðra húsa:
- Gömul timburhús. Útveggir, grind og klæðning.
- Steinuð hús. Varðveisla, viðgerðir, endurbætur og nýsteining.
- Trégluggar í timburhúsum. Varðveisla, viðgerðir og endurbætur á gömlum trégluggum.
- Uppmæling húsa. Uppmælingatækni, fyrirlestrar og dæmi.
Þegar framkvæmd er sannanlega hafin skal styrkþegi hafa samband við Minjastofnun Íslands sem greiðir út styrk eða hluta hans inn á bankareikning styrkþega þegar gerð hefur verið grein fyrir hvernig staðið er að framkvæmdinni með greinargerð og ljósmyndum eða úttekt minjavarðar.
Sérstök athygli skal vakin á því að styrkurinn fellur niður við næstu áramót hafi hann ekki verið nýttur. Ef óviðráðanlegar ástæður eru fyrir því að ekki var unnt að nýta styrkinn á styrkári getur styrkþegi sótt skriflega (eða rafrænt) um það til Minjastofnunar Íslands að greiðslu hans verði frestað fram á næsta ár.