1.desember - Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Eyrinni
Á landinu öllu hafa verið staðfest 13 verndarsvæði í byggð og má þar m.a. nefna þorpið í Flatey á Breiðafirði, Plássið og Sandinn á Hofsósi, Þormóðseyri á Siglufirði og Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Markmið laga um verndarsvæði í byggð er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Sveitarstjórn skal meta hvort innan staðmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð. Minjastofnun Íslands veitir ráðgjöf um mat á varðveislugildi byggðarinnar.
Ísafjarðarbær við upphaf 20. aldarinnar, myndir frá Dönskum landmælingarmönnum (Landmælingar Íslands)
Í október síðastliðnum staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, nýjasta verndarsvæðið í byggð, Neðstakaupstað og gamla bæinn á Eyrinni á Ísafirði. Í tillögu að friðlýsingunni segir að svæðið sé einstakt fyrir þær sakir að þar hafi varðveist mörg hús frá fyrstu árum þéttbýlismyndunar á Íslandi. Enn fremur segir að svæðið sé nátengt hjarta Ísafjarðar og mikilvægur hluti miðsvæðis bæjarins. Sveitarfélagið leggi áherslu á að stuðla að vernd og varðveislu byggðarinnar enda mikil menningarverðmæti í henni fólgin.
Tillaga og greinargerð - Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Eyrinni
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verndarsvæði í byggð hér.
Einnig er hægt að lesa um nýja verndarsvæðið á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.