Fara í efni

15. desember - Oddi á Rangárvöllum

Loftmynd af uppgraftarsvæðinu 2023. ©Oddarannsóknin.
Loftmynd af uppgraftarsvæðinu 2023. ©Oddarannsóknin.

Oddi á Rangárvöllum

Fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum miða að því að varpa ljósi á hlutverk og gerð manngerðra hella sem voru grafnir út á 10. öld. Árið 2018 fór fram forrannsókn á manngerðum hellum í túninu í Odda. Rannsóknin staðfesti að syðst í túninu eru gríðarstórir fallnir hellar. Enn fremur fannst inngangur inn í uppistandandi helli sem tengst hefur hrundu hellunum. Fyrir framan inngang hellisins var að auki torfhlaðin bygging. Hellakerfið samanstendur af þremur hellum, tveir þeirra stærstu (A-B) eru fallnir fyrir mörgum öldum en sá minnsti þeirra (C) stendur enn og hefur verið til rannsóknar síðastliðin ár. Í könnunarskurði sem tekinn var í þúst í munna stóra hrunda hellisins (A) kom í ljós mikið torfhlaðið mannvirki sem hefur líklega verið forskáli. Hann var kominn úr notkun nokkru fyrir 1158, líklega um aldamótin 1100 eða á sama tíma og minnsti hellirinn og húsið framan við hann. Nýlega hefur komið í ljós fjós sem er sennilegast frá miðöldum. Ekki hafa fundist margir gripir við rannsóknina en þó nokkuð magn af dýrabeinum, m.a. hauskúpa af stórgrip, líklega hesti, sem fannst undir vegg í fjósinu. Hauskúpan og staðsetning hennar er dæmi um húsfórn og virðist sá siður hafa tíðkast í Odda um aldir.

Rannsóknin er hluti af Oddarannsókninni sem Oddafélagið stendur fyrir.

Stjórnandi: Kristborg Þórsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses.

 

Oddarannsóknin á Facebook

Oddarannsóknin

Heimasíða Oddafélagsins

Oddafélagið

 

 

Skýrslur rannsóknarinnar

2017 - Oddi 

2018 - Oddi

2020 - Oddi

2021 - Oddi  

 

Þessi færsla er m.a. unninn upp úr gögnum sem skilað er inn til Minjastofnunar við lok hvers rannsóknarárs.