23. desember - Arnarfjörður á miðöldum
Markmið rannsóknarinnar Arnarfjörður á miðöldum er að skoða búsetuþróun Arnarfjarðar frá landnámi og fram á miðaldir. Minjar hafa verið rannsakaðar á Hrafnseyri, Auðkúlu og Litla Tjaldanesi allt frá upphafi rannsóknarinnar í firðinum árið 2011. Í landi Auðkúlu (á Parti) hefur m.a. fundist víkingaalda skáli (og annar minni skáli), jarðhýsi, fjós, smiðja og öskuhaugur býlisins, járnvinnslusvæði, bænhústóft og kirkjugarður. Þar eru einnig vísbendingar um brennslu á þangi. Í skálanum á Auðkúlu fannst mikið af gripum og þó nokkuð af skartgripum t.d. perlur, brot af kúptri nælu og silfurhringur.
Á Hrafnseyri var stórt jarðhýsi grafið og í gólfi þess fannst talsvert af kljásteinum, sem voru notaðir við vefnað, skaft af klébergspotti og spjótsoddur. Skammt frá jarðhýsinu voru kolagrafir og ummerki í kring um þær benda til þess að járnvinnsla hafi farið fram í túninu á Hrafnseyri á 9. og 10. öld. Rétt við jarðhýsið (neðan Bælisbrekku) er einnig skáli, um 30 metra langur, sem á eftir að rannsaka frekar. Aðrar minjar á Hrafnseyri eru mögulegur virkisveggur Hrafns Sveinbjörnssonar höfðingja sem bjó á staðnum í lok 12. aldar og fram á byrjun 13. aldar en í Hrafnssögu er greint frá meintum virkisvegg umhverfis bæinn.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að landnám hefst mjög snemma í Arnarfirði eða á síðari hluta 9. aldar og virðist fjörðurinn hafa byggst nokkuð hratt og verið þéttbýll. Búið var á Hrafnseyri, Auðkúlu og Eyri (Grelutóttum) á sama tíma. Auk þessa er að finna skála við Dynjanda og á Litla-Tjaldanesi ásamt því að vísbendingar eru um fleiri óþekktar landnámsminjar víðar í firðinum.
Rannsóknin er unnin í samstarfi við Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Prófessors embætti Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri, einnig á síðustu árum Bradford Háskóla þar sem nemendur í fornleifafræði við háskólann hafa tekið þátt í rannsókninni og fengið vettvangskennslu.
Stjórnandi: Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Náttúrustofu Vestfjarða.
Facebooksíða rannsóknarinnar
Heimasíða Náttúrustofu Vestfjarða
Efni frá sýningu um rannsóknina
Skýrslur rannsóknarinnar
2012 - Arnarfjörður á miðöldum
2013-2014: Arnarfjörður á miðöldum
2015 - Arnarfjörður á miðöldum
2016 - Arnarfjörður á miðöldum
2017 - Arnarfjörður á miðöldum
2018 - Arnarfjörður á miðöldum
2019 - Arnarfjörður á miðöldum
2020 - Arnarfjörður á miðöldum
Þessi færsla er m.a. unninn upp úr gögnum sem skilað er inn til Minjastofnunar við lok hvers rannsóknarárs.