Rútshellir (Hrútshellir) undir Eyjafjöllum
Rútshellir er neðst í fjallshlíð undir Eyjafjöllum. Hann hefur lengi vakið athygli fólks, sumpart vegna legu sinnar, svo nálægt alfaraleið, en hann þykir líka falleg og býsna flókin smíð. Hann er holaður út í fíngert móberg. Sérstakt við hellinn er að enginn strompur skuli vera á honum sem nær upp í gegnum bergið og út. Eftir að fjárhúsið var byggt framan við hellinn um 1920 hefur meginhellirinn verið notaður sem hlaða en fyrir þann tíma fer ekki miklum sögum af hlutverki hellisins.