Fara í efni

Fréttir

24. desember - Keflavík í Hegranesi

24.12.2024
Sumarið 2015 hófst uppgröftur á kirkjugarði úr frumkristni í Keflavík, Hegranesi í Skagafirði. Við uppgröftinn kom í ljós kirkja í miðjum kirkjugarðinum. Hún hefur verið timburkirkja með hornstoðum og torfvegg á tveimur hliðum.
Yfirlitsmynd af rannsóknarsvæðinu við lok uppgraftar árið 2016. © Byggðasafn Skagfirðinga.

23. desember - Arnarfjörður á miðöldum

23.12.2024
Markmið rannsóknarinnar Arnarfjörður á miðöldum er að skoða búsetuþróun Arnarfjarðar frá landnámi og fram á miðaldir. Minjar hafa verið rannsakaðar á Hrafnseyri, Auðkúlu og Litla Tjaldanesi allt frá upphafi rannsóknarinnar í firðinum árið 2011.
Loftmynd af minjum í landi Auðkúlu árið 2020. © Náttúrustofa Vestfjarða.

22. desember - Landnám og nýting sjávarauðlinda á Ströndum

22.12.2024
Minjastaðir við sjávarsíðuna eru í stöðugri hættu vegna ágangs sjávar og ofsakennds veðurfars. Markmið rannsóknarinnar eru m.a. að skera úr um hvenær land var fyrst numið á Ströndum og hvort staðirnir við sjávarsíðuna hafi upphaflega verið nytjastaðir nýttir á árstíðabundnum grundvelli. Einnig að fá innsýn inn í líf og lífskilyrði þeirra sem sóttu og verkuðu auðlindirnar. Til þessa hafa rannsóknir farið fram í Sandvík, Hvítsöndum, Bjarnarnesi og Búðarvogi.
Loftmynd af Sandvík árið 2021. ©Fornleifastofnun Íslands ses.

Skrifstofa Minjastofnunar lokuð á milli jóla- og nýárs

21.12.2024
Skrifstofa Minjastofnunar er lokuð á milli jóla- og nýárs en opnar aftur 2. janúar 2025.

21. desember - Hofstaðir í Mývatnssveit

21.12.2024
Fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit má rekja allt aftur til ársins 1901. Tæpum 100 árum síðar eða árið 1991 hóf Fornleifastofnun Íslands ses. rannsóknir á staðnum sem stóðu yfir með hléum allt til ársins 2018. Á Hofstöðum hafa m.a. fundist tveir skálar, bæjarhóll, kirkja og kirkjugarður.
Loftmynd tekin með þyrlu, austan við túnið, sem sýnir afstöðu kirkjugarðsins gagnvart núverandi bæjarhúsum á Hofstöðum og rúst víkingaaldarskálans í ágúst árið 2013. ©Fornleifastofnun Íslands ses.

20. desember - Stöð í Stöðvarfirði

20.12.2024
Rannsóknin á Stöð í Stöðvarfirði hófst með forrannsókn árið 2015 og hefur staðið óslitið síðan. Meginviðfangsefni rannsóknarinnar er Víkingaaldarskáli með minnst tvö byggingarstig.
Steinn með krotaðri skipsmynd. Fannst undir suðurvegg eldri skálans. © Fornleifafræðistofan, 2023.

19. desember - Fornar rætur Árbæjar

19.12.2024
Fornleifarannsóknin Fornar rætur Árbæjar fer fram á bæjarstæði Árbæjar á Árbæjarsafni í Reykjavík og miðar að því að varpa ljósi á upphaf búsetu á staðnum og þróun bæjarins ásamt því að miðla rannsóknum og niðurstöðum þeirra til safngesta og almennings.
Loftmynd af uppgraftarsvæðinu á bæjarhólnum (A) eins og það leit út árið 2019. © Borgarsögusafn Reykjavíkur.

18. desember - Vesturbúðarhóll á Eyrarbakka

18.12.2024
Á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka er að finna þyrpingu verslunarhúsa frá einokunartímanum. Þar stóðu verslunarhús Eyrarbakkaverslunar frá fyrri hluta 18. aldar og fram til ársins 1950.
Loftmynd af rannsóknarsvæðinu á Vesturbúðarhóli árið 2023. Ljósmynd: Fornleifastofnun Íslands ses.

17. desember - Ólafsdalur í Gilsfirði

17.12.2024
Menningarlandslag í Ólafsdal er einstakt á landsvísu. Þar var rekinn búnaðarskóli á árunum 1880-1907 og minjar frá tímum hans eru í öndvegi. Þar má t.d. nefna beðasléttur, nátthaga og vatnsveituminjar – allt fyrirbæri sem síðar breiddust út um landið.
Loftmynd af skálarústinni í Ólafsdal undir lok rannsóknar árið 2020. © Fornleifastofnun Íslands ses.

16. desember - Eyðibyggð og afdalir Skagafjarðar

16.12.2024
Verkefnið Eyðibyggð og afdalir Skagafjarðar felur í sér rannsóknir á fornum byggðaleifum í Skagafirði. Á annað þúsund staðir hafa verið rannsakaðir með könnunarskurðum eða kjarnaborum en þar fyrir utan hafa fjölmargar minjar verið mældar upp. Rannsóknirnar hafa bætt miklu við fyrirliggjandi þekkingu á aldri, gerð og legu elstu byggðaleifa í héraðinu.
Horft til suðurs yfir bæjarhól og tvöfalda túngarða á Réttarkoti/Sólheimum í Fljótum. Ljósmynd: Kári Gunnarsson.