Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

Adapt Northern Heritage

Aðlögun menningararfs á norðurslóðum

Adapt Northern Heritage

Aðlögun menningararfs á norðurslóðum (e. Adapt Northern Heritage) er verkefni sem hugsað er til stuðnings samfélögum og skipulagsaðilum við að aðlaga menningarminjar á norðlægum slóðum að umhverfisbreytingum sem kunna að verða vegna loftlagsbreytinga og tengdrar náttúruvár og er það gert með samfélagsþátttöku og gerð vandaðra áætlana.

Verkefnið mun standa yfir frá júní 2017 fram í maí 2020. Að verkefninu standa fjórir aðalþátttakendur og ellefu aðildarfélagar frá Íslandi, Írlandi, Noregi, Rússlandi, Skotlandi og Svíþjóð. Verkefnið er styrkt af Íslandi, Noregi, Skotlandi og Evrópusambandinu í gegnum styrkjakerfi sem ætlað er verkefnum á norðurslóðum (Interreg programme for the Northern Periphery and Arctic).

Verkefninu er stýrt af Minjastofnun Íslands og systurstofnunum í Skotlandi og Noregi, Historic Environment Scotland, Norsk institutt for kulturminneforskning (NIKU) og Riksantikvaren. Þessar stofnanir munu í sameiningu þróa aðferðir við mat á veikleikum og hættum sem kunna að steðja að menningarminjum og útbúa leiðbeiningar fyrir gerð viðbragðs- og verndaráætlana. Þróun og prófun á þessari aðferðafræði mun fara fram á ellefu stöðum í áðurnefndum löndum þar sem leitast verður við að tengja saman hagsmunaaðila, áhugafólk og sérfræðinga til að deila þekkingu og standa sameiginlega vörð um menningararfinn.

Heimasíðu verkefnisins má nálgast hér og einnig er hægt að skrá sig hér á póstlista verkefnisins, en fréttabréf verður gefið út ársfjórðungslega.

Tengiliður verkefnisins á Íslandi er Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra og verkefnisstjóri strandminja.

English