Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

Vernekriterier for geologiske forekomster og kulturminner

Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar var á árinu 2002 hrundið af stað samstarfsverkefni Íslands, Grænlands og Svalbarða undir heitinu:Vernekriterier for geologiske forekomster og kulturminner. Samstarfshópi fulltrúa þessara landa var ætlað að ræða hvaða forsendur hafi verið lagðar til grundvallar fyrir friðun náttúru- og menningarminja í viðkomandi löndum. Rætt var almennt um verndarviðmið og verndargildi, hvort hægt væri að mæla verndargildi náttúru- og menningarminja og hvort slíkt gæti gagnast innan stjórnsýslu í náttúru- og fornleifavernd. Í hópnum sátu tveir fulltrúar frá hverju landi, annar tengdur náttúruvernd en hinn fornleifavernd. Fyrir Íslands hönd sátu Ingvar Sigurðsson jarðfræðingur og Kristinn Magnússon fornleifafræðingur í hópnum. Joel Berglund og Tom Christensen koma frá Grænlandi og Winfried Dallmann og Åsmund Sæther frá Svalbarða. Åsmund Sæther var verkefnisstjóri. Kirsti Høgvard sem starfaði á Svalbarða var ritari samstarfshópsins. Árið 2005 kom út skýrsla á vegum norrænu ráðherranefndarinnar þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum samstarfshópsins: TemaNord 2005:541. Vernekriterier for geologiske elementer og kulturminner i Arktis.