Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

PHIVE

Minjastofnun er þátttakandi í PHIVE (Promoting and Preserving Heritage in Virtual Environments) sem er samstarfsverkefni styrkt af Norðurslóðaáætlun ESB og leitt af Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri. Verkefnið snýr að stafrænni þróun menningararfs, en Minjastofnun er aukaaðili í verkefninu. Áfram er unnið að þróun smáforritsins Muninn í tengslum við PHIVE-verkefnið, en upphaf þess má rekja til CINE-verkefnisins sem er einn forvera PHIVE. Árið 2021 fór fram ráðstefnan Einu sinni var...í framtíðinni - stefnumót um stafræna miðlun. Stefnumótið var lokaviðburður í PHIVE verkefninu. Þar voru flutt erindi um stafrænan menningararf og framtíð arfleifðarinnar í sýndarheimum rædd í málstofum af um 30 innlendum og erlendum fyrirlesurum. Jafnframt  gafst gestum tækifæri á að kynna sér um 20 tæknilausnir og afrakstur verkefna á þessu sviði, sem og nýsköpun eins og leiki, sýndarveruleika og upplifun byggða á menningararfinum. Starfsmenn Minjastofnunar Íslands kynntu smáforritið Muninn sem hægt er að sækja í PlayStore. Það er fyrir áhugafólk um fornleifar sem getur skráð minjar með einföldum hætti í forritinu, tekið ljósmynd og hnitsett staðsetningu. Einnig hélt starfsmaður Minjastofnunar erindi um þrívíddarskráningu á Reykjanesskaga sem gerð var vegna eldgoss á skaganum árið 2021 og setti minjastaði í hættu. Hægt er að skoða þrívíddarmódelin á Sketchfab síðu Minjastofnunar Íslands

Verkefnastjóri PHIVE er Skúli Björn Gunnarsson hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri. Sjá nánar á heimasíðu Phive: PHIVE (interreg-npa.eu).