Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

CINE

CINE - Connected Culture and Natural Heritage in the Northern Environment

Líttu á fortíðina - ímyndaðu þér framtíðina

Verkefnið Tenging náttúru- og menningarminja í umhverfi Norðurslóða (CINE) miðar að því að bæta við upplifun fólks á minjum með því að nýta nýjar tæknilausnir í anda hugmyndafræði um „safn án veggja“. Ný stafræn tækni, s.s. viðaukinn veruleiki (augmented reality, AR), sýndarheimar (virtual reality, VR) og notendavæn smáforrit, verður nýtt til að blása lífi í fortíðina. Með aðstoð tækninnar verður jafnframt unnt að sjá áhrif umhverfisbreytinga á minjastaði og horfa til hugsanlegrar framtíðar.

Þú munt geta skoðað leiðina sem vinnumenn frá Skriðuklaustri fóru til verstöðvar í Hálsahöfn í Suðursveit fyrir 500 árum. Leið sem liggur í dag að miklu leyti yfir Vatnajökul en var greiðfær á fyrri hluta 16. aldar. Hvar lá leiðin? Hvar gistu þeir? Hvernig var jökullinn þá og ströndin? Hvernig verður jökullinn eftir 20 ár eða önnur 500 ár?

Að baki tækninni verður þróuð verkfærakista innan CINE verkefnisins sem mun gera söfnum og fræðimönnum, einstaklingum og samfélögum, kleift að skapa nýstárlega nálgun á náttúru- og menningarminjar. Notandinn mun fá einstaka upplifun, hvort heldur á staðnum eða heima í sófa.

Í víðu samhengi mun CINE kanna félagslegt, efnahagslegt og pólitískt hlutverk menningararfleifðar innan afskekktra samfélaga á Norðurslóðum og þróa leiðarvísa fyrir viðeigandi stefnumótun í umhverfis- og skipulagsmálum.

CINE er samstarfsverkefni níu aðila og tíu aukaaðila frá Noregi, Íslandi, Írlandi og Skotlandi sem fjallar um stafræna skráningu og miðlun menningararfs. Verkefninu er stýrt af Museum Nord í Norður-Noregi og fjármagnað af Norðurslóðaáætlun (NPA) Evrópusambandsins (Northern and Arctic Periphery Programme (ERDF)).

Heimasíða CINE

Facebooksíða CINE

Tengiliðir verkefnisins hjá Minjastofnun eru Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, og Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands.