Samstarfsverkefni
Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.
Menningararfsár Evrópu 2018
Ákveðið hefur verið að árið 2018 verði tileinkað menningararfi Evrópu og er það haldið hátíðlegt um alla álfuna. Menningararfsár Evrópu er haldið að frumkvæði Evrópusambandsins í samstarfi við Evrópuráðið. Markmið ársins er að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur, m.a. í listum og nýsköpun. Þetta endurspeglast í einkunnarorðum ársins: Menningararfurinn, forn og nýr í senn.
Minjastofnun Íslands var falið af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að vera í forsvari vegna skipulagningar Menningararfsárs Evrópu 2018 hér á landi. Minjastofnun sér um um að veita upplýsingar um árið, í samvinnu við aðrar menningarstofnanir sem fara með verndun menningararfsins; Þjóðminjasafn Íslands, Árnastofnun, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands.
Menningararfsárinu er ætlað að auka gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög; að kynna auðugan og fjölbreyttan menningararf Evrópu og hvetja fólk til að ígrunda þann sess sem menningararfur hefur í lífi okkar allra og hvað við getum gert til verndunar hans.
Menningararfurinn á þátt í því að byggja upp sterkari samfélög, hann getur skapað störf og hagsæld, m.a. í ferðaþjónustu, og er mikilvægur fyrir sjálfsmynd okkar og jákvæð samskipti við aðra hluta heimsins.
Evrópskur menningararfur er fjölbreyttur en þótt hann virðist ólíkur liggja margvíslegir þræðir og tengingar þvert yfir landamæri og á milli samfélagshópa. Því er hvatt til þess nú í ár að fólk bæði deili menningararfi sínum sem og kynnist arfi annara hópa og samfélaga. Með þessu eykst meðvitund um sameiginlega sögu okkar í Evrópu og um sameiginleg gildi þeirra þjóða sem standa okkur næst. Í gegnum menningararfinn öðlumst við skilning á fortíðinni og höfum áttavita til framtíðar.
Árið 1975 var haldið húsverndarár í Evrópu. Þá var sjónum sérstaklega beint að byggingararfi álfunnar og mikilvægi verndunar gamalla húsa og mannvirkja. Árið 1975 hafði mikil áhrif hér á Íslandi og var mikilvægur hluti almennrar hugarfarsbreytingar um gildi byggingararfs þjóðarinnar, ekki síst fyrir tilstilli einstaklinga sem börðust á þessum tíma fyrir gamalli byggð Reykjavíkur. Áhrifin eru þau að í dag hefur gömlum húsum og mikilvægu menningarlandslagi verið gert til góða víða um land.
Meginþema Menningararfsársins 2018 hér á Íslandi er Strandmenning. Varð það þema fyrir valinu af tveimur ástæðum. Annars vegar að það er um hafið sem Ísland tengdist Evrópu og að allt frá landnámi og fram á 20. öld fóru öll samskipti við útlönd um hafnir landsins; hvort sem um verslun, fólksflutninga eða útbreiðslu nýrra hugmynda var að ræða. Hins vegar er það svo að með loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar stafar fornleifum og öðrum menningarminjum við strandir landsins hætta af ágangi sjávar. Það er því von okkar að árið 2018 veki fólk til umhugsunar um þær viðkvæmu og mikilvægu menningarminjar hér á Íslandi sem eru í sífellt meira mæli að verða náttúruöflunum að bráð, á sama hátt og fólk áttaði sig á gildi gamalla húsa árið 1975.
Fjölbreyttir viðburðir verða á dagskrá Menningararfsárs Evrópu um land allt. Verða þeir í höndum framangreindra menningarstofnana sem og annarra fyrirmyndaraðila, safna og annarra sem tengjast menningararfi á Íslandi hringinn um landið .
Viðburðahaldarar fá að nota merki menningararfsársins fyrir sína viðburði og vísa þannig til ársins og sameiginlegra markmiða þess.